Ég þarf að fara á fundi í Edinborg á morgun og fimmtudag. Fer héðan snemma í fyrramálið og kem ekki aftur heim fyrr en seint á fimmtudagskvöld. Og ég vissi að ég er komin vel inn í heilsusamlega rútínu því ég byrjaði á að athuga hvort það væri líkamsrækt á hótelinu eða nálægt því. Því miður er engin rækt í grenndinni þannig að í kvöld þegar ég kom heim úr vinnunni gerði ég ræktargallann tilbúinn fyrir föstudagsmorgun, vitandi að ég verð ekki komin heim fyrr en að verða ellefu á fimmtudagskvöldið og eflaust ekki í standi þá til að vera að finna til galla og annað slíkt. Ég setti líka saman léttan morgunmat og vigtaði hollt nasl til að hafa með mér svo ég detti ekki í kexið sem er alltaf boðið upp á á þessum fundum.
Mér sýnist á dagskránni að það verði lítill sem enginn tími til að skoða sig um. Sem er synd því ég hef aldrei komið þangað áður og hefði metið að fá að fara í smá göngutúr um miðsvæðið. Sama er reyndar um Brighton, þangað hef ég farið milljón sinnum en aldrei séð borgina, bara skrifstofur. Samt, gaman að hitta loks fólk í fleskinu sem maður talar við í síma oft á dag.
Ég vona svo að skipulagið allt sé þess virði. Ég hef engan áhuga á að taka skref aftur á bak nú þegar allt er í svona líka fúll svíng. Och aye the noo!
Engin ummæli:
Skrifa ummæli