laugardagur, 16. apríl 2016

Af orsök og afleiðingu

Af einhverjum ástæðum situr fast í mér eitthvað sem ég las í félagsfræði í MS fyrir alls ekkert svo löngu síðan. Þannig er að þegar sala á rjómaís eykst er líka hægt að greina aukningu á nauðgunum. Þannig má þá draga þá ályktun að það að borða ís láti mann nauðga fólki. En að sjálfsögðu er hér þriðja breytan sem vantar í dæmið; sumarhiti. Á sumrin borðar maður meiri ís og það er auðveldara að athafna sig við nauðganir. Ísátið og nauðganir þannig alveg óskyldar.  Mér dettur þetta alltaf í hug þegar ég byrja að draga ályktanir. Þannig er að ég hætti að drekka sykurlausa gosdrykki í September. Og hef hreinlega ekki fengið mér einn einasta sopa af diet kók allan þennan tíma. Er búin að fá mér eina eða tvær dósir af sykruðu kóki en diet draslið snerti ég ekki. Ég er heldur ekkert sérstaklega að taka út alla gervisætu, ég nenni ekki að vera með einhvern trúarofsa gagnvart þessu. Á þessum sama tíma er ég búin að léttast um einhver fjórtán kíló. En það eru of margar aðrar breytur í dæminu til að ég geti sagt að velgengin sé þessu að þakka. Ég er náttúrulega búin að gera heilmikið annað líka á þessum tíma. En það er samt eitthvað sem segir mér að hluti af velgengninni sé þessu að þakka. Svona eins og að líkami minn sé meira tilkippilegur við fitubrennslu þegar ég sleppi diet kókinu. Ég þurfti reyndar ekkert að hafa fyrir því að hætta að drekka það, ég bara hætti því einn daginn svona eiginlega óvart. 
Á þessum sama tíma hef ég nefnilega líka unnið staðfastlega að því að koma "allt eða ekkert" hugsunarhættinum fyrir kattarnef. Ég er nefnilega alltaf að gera mér betur grein fyrir því hvað það er litlir, agnarsmáir daglegir hlutir sem skipta máli til breytinga. Það er ekki nauðsynlegt að mæta í ræktina tvisvar á dag, hætta að borða sykur,lactósa, glúten og aspartame, hugleiða klukkustund á dag og verða sérfræðingur í hvernig á að búa til gómsæta hráostaköku úr tófú einusaman og byrja að halda uppi vinsælu heilsumatarbloggi til þess að verða heilsusamlegri.
 Á hverjum degi er nóg að taka einn hlut af 'to do' listanum til að láta manni líða vel og það er til þess að velgengisspírallinn fer í gang. Á mínum persónulega lista er ýmislegt að finna en ef ég horfi yfir vikuna þá líður mér vel þegar ég hef borðað fisk þrisvar sinnum í kvöldmat og salat í hádeginu frekar en samloku. Þær vikur sem ég geri þetta léttist ég líka undantekningalaust. Ég hugsa aftur að orsök og afleiðingu því ég er ekki viss hvort þetta tvennt geri það að verkum að ég borða líka hollara í hin málin eða hvort fiskur og salat hafi grennandi áhrif á mig meira að segja þegar ég borða gúmmelað inni á milli. Skiptir svo sem litlu máli svo lengi sem spírallinn snýst og eykur hraðann. 
Hvað er á þínum daglega 'to do’ lista? 

Engin ummæli: