þriðjudagur, 12. apríl 2016

Af primordial soup

Ekki veit ég hvaða forsjá það var sem sá til þess að réttu örverurnar sem flutu um í endalausu úthafi hittust og elskuðu hvora aðra til að skapa aðstæðurnar sem að lokum milljón trilljón árum síðar skilaði mannfólkinu á jörðina. Og ekki skil ég heldur hvað það var sem gerði mannveruna þannig að hún hefur vitund og sjálfskilning umfram aðrar dýrategundir. Hvað þá að ég skilji hvaða þróunarlegar ástæður lágu að baki því að einhverntíman í svartnætti frummennsku tóku formæður mínar upp á því að grilla mammútalærin. Hver svo sem ástæðan var þá er ég afskaplega þakklát því akkúrat þetta að elda matinn varð til þess að við mannverurnar gátum tekið inn mun meiri hitaeiningar á fljótlegri hátt en að þurfa að melta hrátt kjöt og smá saman varð það til þess að við urðum klárari og klárari. Auknar hitaeiningar urðu til þess að við gátum sett svo mikla orku í að stækka og stækka heilann og að lokum er útkoman mannveran eins og hún er í dag. Að elda fallegan og góðan mat sem heiðrar líkamann er því skylda til að þakka þeim sem á undan okkur komu fyrir að leggja í þróunarpúkkið. Og ég gat ekki annað en spurt sjálfa mig að því í kvöld því hvernig í ósköpunum við gátum eytt milljón trilljón árum í þróunarsöguna aðeins til að enda með pulsur í kvöldmatinn?

Engin ummæli: