föstudagur, 21. apríl 2017

Dagbók i 30 daga - 4

Í ár vil ég helst...

Spurning dagsins fór alveg með mig. Í fyrsta lagi þá er bara ekki hægt að setja sér árs markmið núna; það er nánast hálfnað árið! Fyrir fólk eins og mig sem byrja bara á nýjum hlutum á mánudögum, eða um mánaðarmót er útilokað að ætla að ana út í ársplan í lok Apríl, hvað rugl er þetta eiginlega?

En svo sljákkaði aðeins í mér, kannski að þetta sé lexían, að ég læri að slaka á kröfunum sem að lokum eru svo bara til að ég slæ öllu á frest hvort eð er og reyna að setja mér markmið fyrir árið, Þó svo ég hafi bara helminginn af þvi núna til að ná þeim.

Það eru nokkrir mismunandi þættir sem spila hér inn í markmiðin og ég er stundum ekki alveg viss hvað er meginmarkmið og hvað er skref í áttina.

Ég vil vera sátt. Þetta hinsvegar er svo óskilgreint að það er nánast ekki hægt að nota sem markmið. Ég verð að setja inn í þetta ákveðin skref, eða verkefni sem ég get afgreitt sem gera mig sáttari. Inn í það fléttast að taka starfsframann af meiri ákveðni, gera meira úr að ferðast almennilega, rækta betur vinasambönd, spila meira á gítarinn, lesa meira,skrifa meira, horfa minna á sjónvarpið, hjóla meira, fara oftar í klippingu. Allt þetta get ég sett í plan og gert eitthvað í því. Og tjékkað svo á því hvort ég sé sáttari.

Spurning dagsins fékk mig til að hugsa. Og til að langa til að skrifa betur, ekki bara kasta út nokkrum orðum einfaldlega til að standa við loforðið. Kannski að þetta sé að virka?

1 ummæli:

Ella sagði...

Skil þig mjög vel með að finnast fáránlegt að setja niður markmið í apríl, hvað þá seint í apríl, það væri miklu betra að gera það þá fyrsta dag mánaðar ef maður getur ekki gert það um áramót :D