þriðjudagur, 18. apríl 2017

Dagbók í 30 daga - 1

Hver er ég? Fyrsta spurningin í mánaðarlangri skriftaráskorun sem ég hef ákveðið að taka þátt í. Í 30 daga ætla ég að tækla svona spurningar og komast vonandi að einhverju um sjálfa mig og hvað það er sem fær mig til að tifa. 

Hver er ég? Mér finnst eins og ég eigi að svara að ég sé móðir, eiginkona, dóttir.... en sannleikurinn er að það eru ekki orðin sem koma fyrst upp í hugann. Ég vil frekar nota orð eins og sjálfstæð, skapandi, öfundsjúk, örlát, bjartsýn, pirruð, hrokafull, klár, skammsýn, hégómafull. Öll þessi orð lýsa mér betur en hlutverkin sem ég er í. 

Langar mig líka til að segjast vera feit? Er það eitthvað sem skiptir mig máli? Ég efast ekki um að það að vera feit hefur heilmikið mótað hver ég. Það er ekki hægt að neita því að maður upplifir hluti öðruvisi og upplifir öðruvísi hluti eftir því hvernig maður er staddur líkamlega. Mér finnst samt ekki eins og feit sé orð sem lýsir mér eða hver ég er. 

Sem stendur langar mig helst til að svara að ég sé manneskja sem aldrei klárar neitt. Akkúrat núna er ég ekki ánægð með mig og sé helst vankantana á sjálfri mér og þetta að sjá aldrei neitt til enda er það sem helst veldur mér vonbrigðum. Ég er manneskja sem labbar alltaf í burtu frá öllu hálfkláruðu. Þýðir það að mig langi til að breyta því eða er ég bara að segja þetta sem staðreynd? Ég er ekki viss.

Ég held svo að bjartsýnin sé alltaf það sem ég er ánægðust með. Ég er extrovert og mjög stabíl tilfinningalega og sé alltaf björtu hliðarnar. Meira að segja þegar ég er að gagnrýna sjálfa mig hugsa ég með mér að gagnrýnin leiði eitthvað gott af sér og hressist öll við. 

1 ummæli:

Ella sagði...

Hef ekki kíkt hér inn frekar lengi þannig að ég er að lesa þessa dagbókarpósta frá byrjun. Ég tengi alveg svakalega mikið við akkúrat þennan póst, finnst að mörgu leyti eins og þú sért að lýsa mér.