sunnudagur, 30. apríl 2017

Dagbók í 30 daga - 13

Þegar ég lít í spegil.....

...verð ég alltaf smá hissa. Tökum daginn í dag sem dæmi. Ég fór út að hjóla í morgun, gerði brekkuæfingar af nokkurri ákefð og ákvað svo þegar ég kom heim að ég ætlaði að hafa til fallegan sunnudagsmorgunverð handa okkur öllum. Skokkaði út í Co-Op og náði í fersk súkkulaði crossaint og appelsínusafa. Borðaði svo einu of mikið af því að ég sagðist vera svöng eftir hjólatúrinn. Varð allt of södd og þegar ég klæddi mig áður en við fórum út til Wrexham fannst mér allt sem ég fór í vera of lítið og þröngt og ómögulegt. Leit í spegilinn en í stað þess að vera svekkt og sár út af yfirmaganum tók ég eftir hversu vel mér hafði ekki bara tekist með hárið, heldur var augnmálningin líka sérlega smekkleg og dró fram stór, blá augu. Mikið er ég nú alltaf sæt, hugsaði ég og sendi sjálfri mér fingurkoss. Verst hvað ég er feit, kom svo örsnöggt en ég kæfði það niður jafnhratt. Mér tekst semsagt alltaf að finna eitthvað jákvætt,alveg sama hversu illa mér líður með fitubrákina. 

Ef ég hugsa um það alvarlega þá held ég  að þetta sé einn mikilvægast þátturinn í persónugerð minni til að baráttan við spikið beri að lokum árangur og ég finni jafnvægið. Svo lengi sem mér þykir nógu vænt um sjálfa mig til að finnast ég sæt hlýtur mér líka að finnast nógu vænt um mig til að lokum gera í alvörunni það sem er mér fyrir bestu. Það er ást, ekki hatur sem er leiðin áfram. 


Engin ummæli: