föstudagur, 22. febrúar 2013

Í dag hélt ég upp á dag Murtunnar. Og það var svo gaman að  ég ímynda mér að hann verði haldinn hátíðlegur á landsvísu árlega héðan í frá. Ég byrjaði daginn á að sofa aðeins út. Vanalega er ég farin út rétt eftir klukkan sex en í morgun var enginn asi og ég og Lúkas gátum dúllað okkur rétt til níu þegar hann mætti í skólann. Það var yndislegt að byrja daginn með honum og að fá stórt knús við skólann. Ég hélt svo sem leið lá til Chester. Rölti mér meðfram ánni Dee, sá þar Lafði Díönu og annað skemmtilegt. 


Eftir göngu í morgunkulinu var kominn tími á morgunmat. Ég ákvað að prófa að fara á Hickory´s sem er ammrískur diner sem stendur við ánna. Nashyrningurinn er auglýsing fyrir Chester Dýragarð sem er ofboðslega skemmtilegur staður að heimsækja. 

Á Hickory´s fékk ég mér klassískan ammrískan morgunmat; pönnukökur, beikon, hlynsíróp og sterkt, gott kaffi. Þarna sat ég ein, ekki með bók, ekki með neitt til að verja mig eða fela. Sat bara og smjattaði og kjamsaði á matnum mínum og naut hvers einasta bita. Allt hluti af því að sýna sjálfri mér að ég er ekki veik, það er ekkert sem þarf að laga við mig. Ég get borðað mat án þess að það verði til þess að ég missi stjórn á lifinu. Og ég sat og borðaði og brosti. Stoppaði af ásettu ráði þegar ég var hálfnuð með skammtinn og kannaði hvort ég væri enn svöng. Og það kom í ljós að ég var búin að fá nóg þannig að ég ýtti frá mér disknum, södd og sæl. 

Frá Hickory´s lá svo leiðin í Grosvenor Bygginguna, sem er verslunarmiðstöð frá Viktoríutímabilinu og þar má finna háklassaverlsanir. Allt langt utan þess sem ég hef efni eða áhuga á en engu að síður svakaleg gaman að skoða.  

Þar fann ég gallerí sem var með sýningu á súperhetjumyndum og ég skoðaði svona mest með son og eiginmann í huga. Þeir hefðu gaman af þessu. 

Ég stoppaði svo við í Zara og Next og náði mér í peysu og buxur og hringsnérist í mátunarklefanum af ánægju með hvað mér fannst ég vera sæt. Eftir það var um lítið að ræða en að ná í meiri pening, því miður er hann ekki ókeypis eins og auglýst er. Maður borgar sko sjálfur. 

Þaðan lá leiðin um borgarmúrana og framhjá elsta pöbbnum sem hefur verið starfræktur síðan á 12. öld.  Ég kom við í  Waterstones og skoðaði bækur sem ég er reyndar hætt að kaupa út af Kindle en finnst enn alveg svakalega gaman að skoða. Ég get heldur aldrei staðist að skoða matreiðslubækur með fallegum myndum.

Í Chester er enn líka hægt að finna sérverlsanir sem eru hvergi annarstaðar. Allstaðar í Bretlandi eru litlu , einkarreknu búðirnar og veitingahúsin að deyja út en hér er enn haldið í sérstöðuna. 

Ég stóðst reyndar ekki að ég átti ókeypis kaffibolla á Neró og settist því þar inn. Haf'ði hugsað mér að fá mér möndlucroissant með en þegar ég spurði mallakút þá var hann bara enn saddur og ég sleppti því kruðeríinu. Sko! Ég er ekki veik!. Er út er litið er ekki hægt að efast um hvar maður er staddur; rauður símaklefi gefur vísbendingu. 

Ég sat á Neró í dágóða stund og ákvað að fara svo í Boots og nota inneignarpunktana mína þar til að kaupa mér eitthvað sem ég þurfti ekki á að halda. Það er svo gaman að gera gott við sjálfan sig. Og það er líka svo gott að minna sjálfan sig á að eittvhvað gott þarf ekki endilega að vera sjúkkulaði. 

Þegar heim var komið tók ég saman afrakstur dagsins; haframjöl, kókós og trönuber til að búa til hafragraut sem nærir bæði sál og líkama.

Peysa og buxur til að minna mig á að ég er þess virði. 


Hárolía bara svona til að bæta við lúxus. 

Og ein kúla af heimatilbúnum kaffi- og kókósís (uppskrift fylgir ef einhver vill) af þvi að það er svo gaman að skapa eitthvað nýtt. 

Dagur Murtunnar endaði svo fullkomnlega þegar Lúkas minn kom heim með skírteini úr skólanum sem sagði að hann væri "Seren Yr Wythnos" eða Stjarna Vikunnar fyrir sjálfstæð vinnubrögð i skapandi skrifum. Þvílík stjarna! Og ég tel þessvegna að ekki nokkur vafi leiki á að dagurinn verði aftur haldinn hátíðlegur bráðlega. 

Engin ummæli: