laugardagur, 23. febrúar 2013

Við Dave ákváðum að stjarna vikunnar ætti skilið að fá að kaupa sér eitthvað smotterí og buðum honum þessvegna í smá rúnt til Wrexham til að kíkja í dótabúð. Ég notaði tækifærið og hjólaði til Wrexham í kappi við strákana mína í því sem stjarnan kallaði "The race to Wrexham". Ég kom bara sex mínútum á eftir þeim þannig að það er augljóst að það er allt sem mælir með því að nota hjólið til að komast á milli staða. Við byrjuðum á að fara með hjólið á verkstæði til að láta setja á það bretti og til að laga gírana. Ég veit ekki hvað veldur en það festist alltaf í fyrsta gír og svo dettur keðjan af. Þetta þurfti að laga. Ég skildi hjólið eftir á verkstæðinu og við röltum um Wrexham. Þegar Lúkas var búinn í sinni dótabúð var komið að okkur Dave. Nei, ekki þannig dótabúð, nammibúð öllu heldur. Það var komið að vikulegum innkaupum á kaffi. Það er voðalega skemmtilegt að fara inn í Wrexham Just Tea and Coffee, eigendurnir eru gott fólk og mikil uppspretta visku um allt kaffi-og tetengt.Við förum þangað inn svona á viku til tveggja vikna fresti og kaupum poka af Draig Espresso (Dreka Espresso) sem er sérbrennt fyrir verslunina og svo veljum við okkur eitt nýtt drykkjarkaffi. Drekinn fer í latte gerð, tilraunakaffið er fíni morgunbollinn. Þetta er bráðskemmtilegt áhugamál, við fáum að prófa nýtt kaffi og það er svo gaman að fylgjast með þeim í búðinni mala kaffið og tala um það á meðan ilmurinn af nýmöluðum baununum fylla vitin. Við höfum enn ekki tímt að kaupa Kopi Luwak kaffi (þetta sem kötturinn skítur) og höfum heldur ekki lagt í að leggja út fyrir Jamaican Blue Mountain en fundum í dag kaffi frá Súmötru sem notar sömu baun og þessi frá Jamaica. Og þó það sé aðeins dýrara en hin "köffin" í búðinni þá er það langt í frá að vera jafn dýrt og Blue Mountain en býður engu að síður upp á ótrúlega þétt bragð. Ríkur ilmur sem lofaði bragði af karamellu, súkkulaði og berjum og með þessu jarðarbragði sem kaffi frá Súmötru eiga sameiginlegt. Besta kaffi sem ég hef smakkað hingað til.

Við verðum svo stanslaust meiri heimsborgarar hér í rassgati; nú er komið Starbucks í Rhostyllen, sem er næsta þorp hér við okkur. Við ákváðum því að ég myndi fá svona "pit-stop" á leiðinni heim þegar hjólið var tilbúið. Ég rauk því til Rhostyllen og vann keppnina. Traffíkin var orðin slík að þeir sátu fastir í bílnum á meðan ég skaust um, frí og frjáls, og var komin á kaffihúsið langt á undan þeim. Okkur finnst voða gott að sitja á Starbucks, þó ég myndi ekki mæla með því fyrir kaffifólk sem bara drekkur espresso þá er það gósenland fyrir okkur sem hafa gaman af mjólkurblönduðum kaffidrykkjum.

Engin ummæli: