Hundrað milljón sinnum hef ég lést um og þyngst um sömu kílóin. Hundrað þúsund milljón sinnum. Það er bara komið gott núna. Það er mér mun eðlislægara að vera ánægð með sjálfa mig, eins og ég er, frekar en að vera að rembast þetta að breyta sjálfri mér og enda bara full af vonbrigðum. Ég bara á ekki því að venjast að vera óánægð með sjálfa mig. Ég er þessvegna hætt. Hætt að rembast og reyna. Hætt í lífstíl, hætt í megrun. Hætt.
Það er algerlega tilgangslaust að finna upp á enn einni megrunaraðferðinni, trixinu eða viljarstyrksæfingu þegar það sama gerist trekk í trekk; ég finn upp megrunaraðferð, verð glöð og léttist um nokkur kíló, fyllist svo vanþurftartilfinningu, fæ mér nammi, kalla sjálfa mig aumingja og þyngist aftur um öll kílóin.
Ég hef þessvegna núna einungis áhuga á að láta mér líða vel. Ég sé enga frekari ástæðu til að halda áfram að kvelja sjálfa mig. Ég er hraust og ég er sæt, hvað annað þarf ég? Jú, ég væri til í að skilja hvað það er sem lætur mig borða þegar ég er ekki svöng. Það þykir mér áhugavert. En bara alls ekki í þeim tilgangi að léttast um þessi endalausu tuttugu kíló. Þau mega vera ef þeim sýnist svo. Þetta snýst ekki um hvað ég er þung. Þetta snýst reyndar heldur ekki ekki um hvað ég er þung. Ég hef engan áhuga á að verða hundrað og fimmtíu kíló aftur - enda er það að vera hundrað og fimmtíu kíló klénn vitnisburður um sjálfsást.
Nei, ég hef bara enga áhuga á að argast út í sjálfa mig lengur. Ég er búin að reyna að pína sjálfa mig í þrjátíu ár núna og það er ekki að virka. Það að vera hraustur og sætur er bara nóg. Ég, er nóg.
Það sem ég hef áhuga á er að komast að því afhverju ég segi að mér finnist matur bara svo góður, mér finnist bragðið svo gott þegar ég svo borða þannig að ég finn ekki bragð. Ég borða svo hratt að ég finn ekkert bragð. Afhverju ég segi að mér finnist matur svo fallegur þegar ég svo er búin að troða honum svo hratt upp í mig að ég sé ekki hvernig hann lítur út. Það getur bara ekki verið að mér finnist þetta mikið varið í mat ef ég borða hann þannig að ég hvorki sé hann né finn bragð.
Héðan í frá ætla ég að njóta hvers einasta bita sem ég set upp í mig. Ég ætla að spyrja mig hvort ég sé svöng. Og ef ég er svöng þá ætla ég að borða það sem mig langar í. Og ég ætla að hætta að borða þegar ég er orðin södd. Og ég ætla að vera ánægð með sjálfa mig.
2 ummæli:
Ánægð með þig. Frábærar pælingar hjá þér. Plís ekki samt hætta að blogga, finnst alltaf svo gaman að lesa pælingarnar þínar.
Hamingjusöm kíló... Flottasti myndatexti sem ég hef séð
Nei juminn, ég sé ekki að ég hætti að blogga úr þessu, búin að skrifa næstum daglega síðan fyrir síðustu aldamót! :)
Skrifa ummæli