mánudagur, 25. febrúar 2013


Í dag héldum við Dave upp á kærustuparadag. Það er ægilega skemmtilegt að vera kærustupar þegar maður er giftur; það er svona smá risqué. Ég gæti farið út í of mikil smáatriði en við skulum bara segja að það eru um þetta leyti 10 ár síðan Lukku-Láki Jones varð meira en glampi í augunum á pabba sínum. Þegar maður er giftur en heldur upp á kærustuparadag er mjög mikilvægt að gleyma því að maður eigi krakka. Maður bara skilar þeim af sér í skólann og gleymir þeim svo bara. (En bara til klukkan þrjú, annars kemur sósjallinn og tugtar mann til). Svo gerir maður það sem manni finnst skemmtilegt að gera saman.

Í okkar Dave tilviki er það aðallega að fá okkur kaffi og nördar sem við erum, að lesa bækur. Mikil lukkan sem var yfir mér þegar ég fann mann sem nennir að sitja bara og lesa og stundum tala um það sem maður er að lesa. Það er bara ekki sjálfgefið að allir skilji hversu mikilvægt það er að sitja bara í þögn og lesa. Að njóta andartaksins fyrir það sem það er, ekki fyrir það sem það ætti að vera.

Engin ummæli: