þriðjudagur, 26. febrúar 2013

Ég var ekki gömul þegar ég lærði fyrst að mér væri ekki treystandi þegar um mat var að ræða. Ég man ekki lífið öðruvísi en með skömmustutilfinningu yfir því hvað mig langar til að borða mikið. Mig langaði alltaf í meira. Ég skildi mjög snemma að ég var að gera eitthvað "rangt" þegar mig langaði í meira og það var líka mjög snemma á lífsleiðinni sem valdið var tekið frá mér og ég þurfti að fylgja settum reglum, settum matseðli. Og ég hef trúað því síðan að ég sé bestía, að ég sé magnvana gagnvart mat, að ég hafi enga stjórn á mér, að mér sé ekki treystandi, að ég geti ekki lifað nema eftir settum reglum. Ég trúði því frá unga aldri að ef mér væri gefin laus taumurinn myndi ég bara éta og éta þangað til ekkert stæði eftir af heiminum.

Og þannig borða ég. Ég trúi því inni í mér að ef ég flýti mér ekki, ef ég troði ekki í mig eins fljótt og mögulegt er þá taki einhver matinn frá mér. Þannig kemur til þessi löngun mín til að borða í einrúmi. Ef enginn sér hvað ég er að borða þá get ég bara borðað og borðað og borðað í friði.

En hvað ef ég veit að enginn hefur í hyggju að taka neitt frá mér? Og væri ekki enn betra ef ég segði við sjálfa mig að það eru engar reglur til að fylgja? Að ekki bara að ég geti borðað það sem mig langar í heldur að ég geti borðað það hvenær sem er?

Ef það væri málið myndi ég þurfa að borða af þessari ákefð? Myndi ég þurfa allt þetta magn?

Ég gæti sagt sjálfri mér að ég geti loksins hætt að fylgja reglunum sem ég er búin að reyna og mistakast við að fylgja síðan ég var krakki. Að ég geti bara slakað á því ég sé núna fullorðin manneskja sem veit hvað er mér fyrir bestu. Hvað ef ég treysti bara sjálfri mér?

Ég er ekki vandamál. Ég er ekki biluð.

Engin ummæli: