sunnudagur, 3. febrúar 2013

Við fórum á ægilegt skrall í gær maðurinn og ég. Mágkona mín og svili buðu okkur að koma með sér á pöbbinn að horfa á fyrsta leikinn í "6 Nations" keppninni í rugby. Eins og allir vita erum við Veilsverjar miklir rugby aðdáendur og það er að sjálfsögðu heimsfrægt að við unnum þessa keppni með "Grand Slam" í fyrra, þeas við unnum alla okkar leiki. Þetta er alvitað. (Eða er rugby jafnfrægt á Íslandi og handbolti er hér?) Við röltum okkur niður til Johnstown þar sem Lúkas fékk að gista hjá nain og taid (ömmu og afa) og hann var heldur betur sáttur við það enda var Cade frændi hans þar líka og ætlaði að gista. Við vissum semsé að það myndi ekki væsa um þá kumpána.

Lee Halfpenny í stuði. 
Við Dave héldum því á pöbbinn og fyrsti bjórinn kominn á borðið klukkan hálftvö um leið og leikur hófst. Ég hafði sagt við Dave fyrr um daginn að nú væri sko aldeilis tími til að sýna framsýni og fyrirhyggju. Fyrst við værum að fara að fá okkur í stórutána svona yfir daginn þá væri nokkuð ljóst að við myndum sjálfsagt vera komin aftur heim snemma. Við myndum líka sjálfsagt vera rallhálf. Og að vera rallhálf er ávísun á kæruleysi og tvöfaldan beikonborgara. Ég fór þessvegna í langan hjólatúr um morguninn og kom við í búð og kippti með mér því sem þarf í heilsusamlegt kalkúnapastalauslasagne. Og hafði það til þar um morguninn þannig að þegar við kæmum heim um kvöldð með mallann fullan af bjór og óstjórnlega löngun í eitthvað djúsí, nú þá þyrfti ég bara að stinga lasagne inn í ofn og hey presto! við hefðum indælis, djúsí mat tilbúinn og enga ástæðu til að fara í chippie. Við hófum því drykkju án nokkurra vandkvæða og vönduðum okkur til við verkið. Wales hóf leik illa, var komið 17 stigum undir Írland þegar þeir loksins tóku þumalputt úr rassgati og byrjuðu að skora stig. En allt kom fyrir ekki, við töpuðum. Og þurftum að sjálfsögðu að drekkja sorgum okkar. Gerðum það vel og vandlega og höfðum gaman af. Horfðum svo á Skota tapa fyrir Englendingum sem er eins hræðilegt og hugsanlegt er og þurftum að sjálfsögðu að skála í sorg fyrir keltneskum bræðrum og systrum í Skotlandi. Þegar hér var komið sögu var farið að halla mikið á hlutföllin stuð versus skynsemi. Eins og allir vita þá segir jafnan að því meira stuð, því minni skynsemi. Það var komið fast að kvöldmat og okkur fannst öllum tilvalið að panta hálfsmetralangar pulsur í brauði og franskar með um leið og við pöntuðum næsta bjór. Og þessu var svo skolað niður með meiri bjór.

Bacon pancake stack. 
 Eftir því sem ég best veit var alveg hrikalega skemmtilegt, ég var með harðsperrur í kinnum þegar ég vaknaði í morgun. Ég á hinsvegar enn tilbúið heilsusamlegt lasagne inni í ísskáp. Það var ekki sjéns að ég fengi mér eitthvað heilsusamlegt. Nei, fita,hveiti og sykur var það sem minn líkami krafðist og það var það sem hann fékk. Við Dave fórum í rómantískan morgunverð á Frankie & Benny´s og fengum ammríska útgáfu af breskum morgunmat og í eftirrétt fékk ég svo möndlucroissant á Café Neró. Ég hreinlega gæti ekki verið sáttari. Stundum þarf maður bara að láta stuðið eftir sér svona til að geta tekist á við alla skynsemina alla hina dagana.

Ég klára janúar með þriggja og hálfs kílóa tapi og byrja febrúar á stærðfræði formúlunni (93.5-71)/11=2.05. Tvö kíló í febrúar. Við sjáum til. Kannski er ég bara hamingjusöm eins og ég er. Bara hamingjusöm.

Engin ummæli: