Það er margt sem mér líkar mjög vel við hér í Bretlandi. Sem er nú eins gott svona af því að ég er búin að búa hér í 12 ár og sýnist líkurnar á að ég komi heim minnka með hverju árinu. Hér er gott að versla og rosalega margt að skoða, með söguna sýnilega við hvert götuhorn. Fólkið er allt húmoristar og spjallar mikið. Bretar eru líka afskaplega kurteisir. Og þeir eru líka sérlega vandræðalegir og ég gruna þá um að kurteisin sé til að reyna að forðast vandræðalegheit. Ef allir fylgja reglunum þá þarf enginn að vera vandræðalegur. Um leið og breytt er út af vananum fer allt í keppni um að halda andliti. En ef ég segi rétt og satt frá þá fer kurteisi smávegis í pirrurnar á mér. Ég er Íslendingur og ef við viðurkennum það bara þá erum við villimenn inn við beinið. Verst finnst mér áráttan sem samstarfsfólk mitt finnur hjá sér til að halda hurðum opnum fyrir alla. Í vinnunni minni eru langir gangar og skiptir með millihurðum. Til hliðar á göngunum eru svo klósettin. Þannig að ef maður er á leið á kamarinn og einhver labbar á undan manni sem er á leið í gegnum millihurðina þá stoppar sú manneskja undantekningalaust, heldur hurðinni opinni og bíður svo eftir að maður komi. Ég þarf þá að benda á klósetthurðina og gefa til kynna að ég ætli ekki í gegnum millihurð heldur að ég ætli að beygja af leið og inn á klóið. Ef maður svo ætlar í gegnum millihurð en ekki á kló þá stend ég mig að því að byrja að svona hálfhlaup, hálfvalhoppa svo manneskjan sem heldur hurðinni þurfi ekki að bíða á meðan ég rölti mér niður ganginn. Þetta er bara pirrandi. Ég er að undanförnu tekið upp á að að tilkynna hárri röddu að ég sé að fara að pissa. Að ég sé alveg i spreng. Geri jafnvel hreyfingu, krosslegg fætur og beygi mig upp og niður með þjáningarsvip í sambland við kumpánlegt bros. Þetta svínvirkar, fólk snarfölnar og snýst á hæl og hleypur burtu sem fætur toga. Ég hef líka tilfinnanlega tekið eftir að færri reyna að halda hurðum fyrir mig.
Svo koma stundum atriði þar sem ég verð hjákatleg. Við fórum á uppistand í Llangollen um daginn, sem er svo sem ekki í frásögur færandi. Meðan við biðum eftir að sýning hæfist varð mér starsýnt á konu sem sat rétt hjá okkur. Hún var nefninlega í stuttbuxum og með loðnar lappir. Sko kafloðnar. Og löng svört hár, ekki eins og ég verð á veturna, með svona smá fuzz. Nei, hún var með þéttan hárvöxt á báðum leggjum sem hún svo krosslagði svo ég sá enn betur. Ég varð geðsjúklega hneyksluð og pirruð á sjálfri mér að taka eftir þessu og verða svona mikið um. Er ég ekki feministi? Er mér ekki slétt sama um hvort konur raka á sér lappirnar? Nei, það kom í ljós að mér fannst þetta skrýtið og ég starði eins og álka. Sem þýddi svo að ég álpaðist til að svara spurningu frá uppistandaranum sem notaði svo kvöldið til að gera grín að mér. Gott á mig.
Ég þarf greinilega að víkka sjóndeildarhringinn og lækka fordómana mína. Ég er ekki jafn víðsýn og jafngeðja og ég taldi. En ég ætla nú samt að raka á mér lappir áður en ég fer til Spánar. Ég vinn í víðsýninni á einhverjum öðrum velli.