Ég og Láki erum búin að vera ein að stússast þessa helgina enda er Dave að vinna. Ég var búin að ákveða að fara í bæinn á laugardag og kaupa mér gallabuxur og pena skó en svo var nú bara slagveður þannig að ég setti þær áætlanir á pásu. Keypti mér þess í stað Marie Claire til að lesa mér til um hvurslags skó og gallabuxur ég ætti að kaupa. Svona til að vera alveg örugglega í tískunni. Kemur þá ekki í ljós að lúkkið sem mun tröllríða öllu í sumar er "Big Hair". Og ég sem var að fjárfesta í sléttijárni til að minnka mitt náttúrulega big hair! En ég á sem betur fer rykfrakka sem er víst líka lykilatriði um þessar mundir. Sjúkket!
Helgin hefur svo mest megnis farið í (Láka að sjálfsögðu en þess á milli) að skrifa matreiðslubókina mína. Það er svona fínt prógram í tölvunni sem setur uppskriftir upp á svo auðveldan hátt að ég ákvað að færa krumpuðu og olíubornu blaðsnifsin mín yfir á þetta fallega prógramm. Ég læt fylgja með stuttar sögur hverjum rétti þannig að mér allri má gefa ritið út sem einhverskonar ævisögu. "Endurminningar 400 kílóa konu: eða Lifað með rjóma."
Engin ummæli:
Skrifa ummæli