Ég smakkaði þessa súkkulaðiköku fyrst vorið 1991. Mig minnir endilega að það hafi verið í tilefni af stúdentaútskrift Dóru Sifjar fremur en Kalla bróður sem við fórum út að borða á Veitingastaðinn við Tjörnina. Ég man að ég var enn matvönd á þessum tíma og varð fyrir ægilegum vonbrigðum með matseðilinn, vildi alls ekki borða fisk (oja bara!) og pantaði svartfugl. Enginn sagði mér að svartfugl væri EKKI eins og kjúklingur. Ég sat því í einni af fýlunum mínum (svipuð þeim sem ég fer í þegar ég fæ vitlausar jólagjafir) úti í horni og var of fúl til að panta eftirrétt. Dóra pantaði sér súkkulaðikökuna og þrátt fyrir að vera frekar óásjáleg svona sem súkkulaðikaka þá langaði mig til að smakka og narraði Dóru Sif til að gefa mér bita. Og hvílik súkkulaðikaka. Hún var þykk á bragðið, minnti jafnvel á karamellu en bráðnaði samt á tungunni, súkkulaðibragðið gaf frá sér vott af kaffiilmi og en samt var hún svo sæt. Við fórum svo heim eftir matinn og ég hugsaði um kökuna. Hvernig gat eitthvað svona gott bara verið til? Ég hugsaði um hana árum saman og leitaði logandi ljósi að henni, en eini staðurinn sem hún fékkst var Við Tjörnina. Sem betur fer þroskaðist matvísin mín og ég naut þess orðið að borða góðan fisk þannig að nú gat ég farið á Tjörnina og notið alls matarins. Enég verð að viðurkenna að það var alltaf desertinn sem ég beið eftir. Mér áskotnaðist svo uppskriftin að kökunni fyrir nokkru. Hvílík himnasending. Mátturinn væri minn! Ég var búin að liggja yfir henni og margbaka hana í huganum til að vera alveg viss um að vera að gera rétt þegar ég loksins léti verða af því í alvörunni. Þetta er ekkert spaugsmál, fyrir mér er það að baka þessa köku eins og fyrir steingervingafræðing að sjá lifandi risaeðlu, fyrir sagfræðing að fara aftur í tíma, fyrir Jón Bö að hitta Gunnar á Hlíðarenda, hún yrði því að vera fullkomin.
Ég safnaði að mér eggjum og öðru og hófst handa á laugardaginn. Hún var furðu auðveld að gera þegar ég var byrjuð og tók örstuttan tíma. Ég varð fyrir smá vonbrigðum, þetta var of auðvelt. Ég setti hana í ofninn og meðan ég beið eftir því að hún bakaðist hugsaði ég hvað ég væri nú heppin. Að eiga smá sneið af himnaríki og geta núna bara alltaf fengið smakk. En eftir því sem ég hugsaði meira um það fann ég að spenningurinn var að minnka og minnka. Ég tók kökuna út og lét kólna. Ég þorði ekki að smakka. Ég fann það og vissi að ég var búin að skemma kökuna fyrir sjálfri mér. Með því að búa hana til sjálf var ég búina að taka töfrana í burtu, hún var orðin "common and nasty", og mig langaði ekki rassgat í hana lengur. Ég vissi núna að hún er bara súkkulaði, sykur og egg. Í henni er enginn galdur. Kakan sem ég er búin að nota sem viðmið um það sem er best í heimi á bragðið í 13 ár er komin niður af hásætinu.
Svona fer ef maður fer að pota of mikið í hlutina. Maður á að leyfa sumu að halda töfrunum, gömlu góðu dagarnir eru akkúrat það vegna þess að þeir eru liðnir.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli