Við Lúkas fórum í skírn og skírnarveislu í gær sem var mikið skemmtilegt að gera. Skírnin fór fram í lítlli kirkju hér rétt hjá og það var mjög gaman að sjá hvernig þetta fór fram hérna. Skírninvar bara inni í venjulegri messu. Kirkjan, sem var sérstakelga falleg að utan, var í mikilli niðurníslu innvortis og presturinn betlaði mikið af söfnuðinum peninga, bæði bað hann fólk um að ánafna kirkjunni einhverju, fylla út skattaeyðublað sem leyfði kirkjunni að fá hluta af skattpeningnum og svo var gengið um að lokum með bauk sem maður þurfti að setja í. Sjálfur var presturinn léttur og skemmtilegur, greinilega ákveðið að eina leiðin til að halda í litla söfnuðinn sinn væri að verða vinur allra. Messan sjálf var síðan mestmegnis bænir og svo altarisganga. Hann hélt ekki stólræðu en bað og bað og bað. Svo var þarna "kór" sem samanstóð af tveimur níræðum kellingum sem skræktu sálmana með gömlukonu sópranröddunum sínum í ótakt við rammfalskt orgelið og maður átti að syngja með. Sem var dálítið erfitt. Ég söng þó hástöfum með í "Ó þá náð að eiga Jesúm" sem er uppáhaldssálmurinn hans Jóns Ævarrs. Skírnin sjálf fór fram með ágætum, foreldrarnir og guðforeldrarnir þurftu að lofa að ganga á vegum guðs, og syndga ei meir og mæta í kirkju og hvergi var minnst á að barnið héti eitthvað, enda það ekki málið eins og á Íslandi, hér eru öll börn nefnd um leið og þau fæðast og ég vissi því að litli hét Kieron. Sem minnir mig á það. Hvað ætlar Fröken Pulsbjörg Dís Warzaw að skíra dóttur sína?
Eftir messu var svo haldið sem leið lá á hverfispöbb foreldra Kierons litla (The Coach and Horses)þar sem skírnarveilsan var haldin með pompi og pragt og mikið skálað í bjór og öðrum góðu. Ekki var hægt annað en að fá sér einn kaldan enda glampandi sól og hátíðlegt tilefni. Ég skemmti mér konunglega en gat ekki annað en hugsað að eitthvað þætti það skrítið á Íslandi að gera þetta svona.
Sonur minn virðist hinsvegar búinn að finna sér ævistarfið; hann talaði ofan í prestinn hvað eftir annað og blessaði lýðinn út í eitt. Hann á eftir að verða góður prestur. Ja, ef hann passar sig svo á að sofna ekki í miðri ræðu eins og hann gerði í gær.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli