Hitinn náði einum 27 stigum í dag og svona í efri mörkum að mínu og Lúkasar mati þó Dave hafi malað eins og köttur úti á stétt í allan dag. Ég settist þó aðeins niður úti og er núna eldrauð í framan en upphandleggirnir fallega brúnir. Ekkert samræmi.
Við fórum með Láka til húðsjúkdómalæknisins í dag og það er bara voða lítið að barninu. Þetta er bara exem sem við þurfum að bíða eftir að fari. Hana nú. Ég vissi það svo sem en alltaf nauðsynlegt að láta sérfræðinginn segja það. Við héldum að hann yrði prófaður við mjólkur ofnæmi í dag en það er víst eitthvað seinna. Hann fær því bara mömmumjólk og soja-mjólk svona núna en vonandi kemur svo í ljós að hann megi alveg borða mjólkurvörur. Það gerði lífið aðeins einfaldara. Við keyptum handa honum soja-jógúrt í dag og hann svolgraði hana í sig eins og um rjómaís væri að ræða. Það var voða gaman að geta gefið honum eitthvað svona smá "trít".
Við mæðginin verðum svo ein heima frá miðvikudagsmorgni og fram á fimmtudagskvöld þar sem Dave er að fara á einhverja ráðstefnu. Það verður örugglega skrýtið að vera bara tvö ein heima yfir nótt. Ég er nú samt voða stolt af Dave, hann er að fara sem fulltrúi fyrir sitt fyrirtæki vegna þess hversu vel hann stendur sig í vinnunni.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli