þriðjudagur, 1. júní 2004

Lúkas vakti mig klukkan hálf sex í morgun eftir frekar svefnlitla nótt, hann klæjaði í allan kroppinn og svaf illa. Öfugt við gærdaginn sem var svo sólríkur og fínn að ég fékk ís án samviskubits, þá er rigningarúði úti núna. Ég er búin að finna svo svakalega fína gönguleið, rétt tæpur klukkutími, og hafði í hyggju að ganga á hverjum degi. Í gær var það æðislegt, ég var í sólbaði á meðan að ég gekk, en er einhvernvegin ekki jafn aðlaðandi núna. Það þýðir nú samt lítið að spá í því, ef ég ætla að gera þetta þá verð ég að gera það í rigningu líka. Hér er alltaf rigning. Fyrir hvern sólardag er þremur rigningardögum komið fyrir. Það er reglan. En ég get ekki kvartað, á sumrin er rigningin ljúf, fellur beint niður og vel hægt að nota regnhlíf. Á veturna aftur á móti er íslensk rigning, rigning sem stendur að manni úr öllum áttum og regnhlífar fjúka út í veður og vind.

Ég er alltaf jafn heppin, lukkan sendi mér pening fyrir tripp trapp stólnum hans Lúkasar og nú þarf ég bara að panta hann. Þá verður nú gaman að borða saman, ólíkt núna þarf sem greyið þarf að sitja í kerrunni sinni við matarborðið. Dave sem aldrei borðaði við borð, nema kannski á jólunum, er núna æstur í að Lúkas fái að njóta fjöslkyldustundarinnar sem matartíminn er. Hugsið ykkur, hann sat annaðhvort með diskinn á njánum fyrir framan sjónvarpið eða eftir að hann eldist þá fór hann bara með diskinn upp í herbergið sitt. En núna, eftir að ég kom til og hann er farinn að venjast og njóta þess að leggja fallega á borð og sitja svo og spjalla yfir matnum finnst honum að Lúkas verði að fá að gera þetta líka. Þó svo að það þýði að Lúkas verði öðruvísi en allir hinir. Dave er aftur á móti ekki jafn ginkeyptur fyrir því að leyfa Lúkasi að koma upp í til okkar. Ég hef enn ekki hætt að skríða upp í til mömmu og pabba og þó svo að ég sé viss um að þetta hafi verið á tímum óþægilegt fyrir þau þá er ég líka sannfærð um að það að fá að kúra í pabbabóli hafi verið uppsprettan að því að mamma og pabbi eru fyrir mér skjól og hlýja og ást og mýkt og umhyggja. Og ég vil að Lúkasi líði þannig gagnvart okkur pabba hans. Dave hefði ekki farið upp í til mömmu sinnar og pabba þó honum hefði verið borgað fyrir það. Ég er ekki einu sinni viss um að honum sé sérstaklega vel við þau. (Orsök og afleiðing?) Og ef Lúkas vex úr grasi og finnst um mig það sem Dave finnst um mömmu sína þá myndi ég bara hreinlega deyja. En Dave finnst ekki sniðugt að leyfa honum að vera í millinu, og við erum enn að ræða málið. Hann á bara svo erfitt með að skilja hvað ég á við af því að hann hefur aldrei upplifað það. Ég skil alveg hvað hann á við, auðvitað vill maður ekki að krakkarnir manns ryðjist inn á mann í tíma og ótíma. Við eigum eftir að finna milliveg á þessu. Því ekki vil ég heldur að Lúkas endi eins og ég og Stefán í millinu.

Engin ummæli: