fimmtudagur, 23. september 2004

Einn kúnnanna okkar í dag og ég áttum langt spjall. Hann er pólverji sem er búinn að búa í Veils í 60 ár. Kom hingað fyrst 1940, þá 18 ára gamall, til að berjast með Bretum í stríðinu. Giftist svo velskri stúlku í óðagoti 1943 og fór aldrei aftur heim. Hann var svo óheppinn að vera skotinn þrem dögum fyrir stríðslok og er búinn að vera haltur síðan. Hann sagði mér að hann væri landlaus. Eftir þetta mörg ár væri hann ekki pólverji lengur og hann væri svo sannarlega ekki Breti. Hann sagði mér að það væri bara fínt, landamæri skapi bara stríð. Ég er samt búin að vera með hnút í maganum síðan ég hitti hann; ef ég verð hér að eilífu tapa ég þá Íslandi úr mér? ég vil ekki verða breti. Eða er ég með úreldar hugmyndir um þjóðerni?

Hálfvelski/hálfíslenski sonurinn minn þýtur nú um allt á rassinum, hálfskríður, hálfýtir sér áfram en á undraverðum eldingarhraða. Líttu af honum í sekúndubrot og hann er að hella kaffibollanum sem var skilinn eftir á stofuborðinu yfir vídeótækið. Eða rífa símasnúruna úr sambandi. Eða tæta í sundur bækurnar okkar. Merkilegt hvað ég hljóma stolt af honum?

Við fáum svo bréf núna nánast daglega frá lögfræðingnum, hann lætur okkur vita hvað er að gerast í húsakaupunum. Margt og mikið, en ekkert sem bendir til undirskrift samninga eða tilkynning um neinar dagsetningar. Mest virðist þetta vera með landarmerki og kolanámur að gera. Húsið er það gamalt að það er flókið að fá staðfest hver á hvað og hvað tilheyrir og svoleiðis.

Svo er það bara að bíða eftir næstu helgi og heimsókninni frá Þollurunum. Jei! Rauðkál og remúlaði!

Engin ummæli: