Þá mega jólin koma á þetta heimili. Hér er allt til; rauðvín, rósakál (svo ferskt að það er enn á stilknum) og rjómi. Súkkulaði í fimm tegundum, epli, hnetur og mandarínur, ostar og kex, innpakkaðar gjafir, kerti, spil og ást og umhyggja. Allt heimilisfólk hefur fengið ný plögg svo enginn verður jólakettinum að bráð, og velflest horn ilma af ajaxi. Ekki alveg öll, en flest. Við Dave þurfum að mæta í vinnu næstu tvo dagana en svo erum við í fríi fram yfir næstu helgi. Ljómandi það alveg hreint.
Hér verður sú nýbreytni að það á að bjóða upp á bleika ógeðið í ár. Bleika ógeðið er epla og rauðbeðu salat sem mamma hefur haft á jólaborðinu svo lengi sem ég man eftir mér. Eins og sést á nafngiftinni þótti mér ekki mikið til þess koma á mínum yngri árum. Þetta er engu að síður það nafn sem hefur fests við það á heimili foreldra minna. Ég lagði nú aldrei í að smakka en hefði þótt ómögulegt að halda jól án þess. Þegar ég svo byrja að búa fannst mér nóg að elda rósakál bara fyrir lúkkið (ég borða ekki rósakál) þó ég bætti ekki bleika ógeðinu við. Dave borðar rósakál þannig að ég gat réttlætt það þannig. Harpa og Arnar buðu svo upp á salatið með matnum um síðustu helgi og Dave bað mig svo fallega um að hafa það á jólum að ég er núna búin að kaupa allt sem þarf í það. Þannig að nú er jólaborðið mitt loksins orðið fullorðið. Rósakál og bleikt ógeð.
1 ummæli:
Jólin verða greinilega súperfín hjá ykkur. Gleðileg jól :)
Skrifa ummæli