miðvikudagur, 18. nóvember 2009

Gærdagurinn var alveg merkilegur. Ég gleymdi að borða hádegismatinn minn. Ég fór snemma í vinnuna og tók með mér sveppasúpu sem ég hafði búið til á mánudaginn. Og svo um þrjú leytið fannst mér ég vera ægilega svöng og fékk mér möndlurnar mínar. Og sá þá súpuna. Ég hef áður sleppt því að borða, ég hef áður ekki haft tíma til að borða, en ég hef aldrei, aldrei gleymt að borða. Vanalega skipti ég deginum niður í kringum máltíðir, ég plana allt í kringum næstu máltíð. Allt. Og eitthvað gerðist í gær sem tók það að borða og setti það í allt annað sæti í forgangsröðinni. Nú veit ég að það er alls ekki sniðugt að sleppa máltíðum og ég hef ekkert í hyggju að gera það, en mikilvægið hér liggur í að í fyrsta skipti á ævinni þá voru heili og magi í fullkomnum tangó, og ég fékk engin boð um að borða áður en ég varð svöng. Svona hlýtur það að vera sem heilinn í mjóu fólki virkar. Þannig að ég fékk að vera mjó, í heilanum, í smástund í gær. Og það var æðislegt.

Hér er alveg svakaleg rigning. Ég er að velta fyrir mér hvort ég tími að fara út í nýju stígvélunum mínum. Há, svört, flatbotna leðurstígvél. Alveg ægilega flott. Og keypt svona because I´m worth it og allt það. Ég keypti mér líka svona gammósíur eða leggings eins og þær eru nú víst kallaðar. Svona til að vera í við stígvélin. Ég hafði séð stelpur í svona í dálítinn tíma og man að ég hugsaði með mér að það væri nú leiðinlegt að mér þætti þetta svona ógurlega ljótt af því að gammósíur eru fullkominn fitubollu fatnaður. Teygja! En að ég færi nú aldrei í svona. Þetta væri örugglega bara eitthvað sem hallærislegir Bretar væru í. Svo voru Ólína og Helga báðar í leggings þannig að ég þurfti að endurskoða málið. Og er í þeim núna. Og mér finnst þetta ekki fallegt. Ég verð nú bara að segja það. Ég er gömul og hallærisleg. Og er núna á leiðinni að láta lita á mér hárið fjólublátt um leið og ég næ í fullorðinsbleyjurnar mínar.

3 ummæli:

Hanna sagði...

Á ég að senda einn pakka af Tena yfir til þín??

Fjólublátt knús á þig, brainy
H

Hulda sagði...

Hahahah

Nafnlaus sagði...

leggings eru töff og þægilegar (nema maður þarf bara að passa sig á að enda ekki á því að nýta alla teygjuna í þeim :) En það sem er virkilega töff er að fara í litaðar oroblue leggings eða sokkabuxur og í svona see through blúnduleggings yfir! Mæli með því Svava mín, þá verðuru more stylish en þessar bresku ! :)
Kv.Kolbrún Frænka