fimmtudagur, 5. nóvember 2009


Tveir Freyju staurar. Handfylli af Apolló lakkrís. Hálfur poki af Nóa rjómakúlum. Tvær skálar af ís. Kassi af Góu æði. Eitt Nissa. Poki af fylltum lakkrísreimum. Tvær kókómjólk. Tveir lítrar af Egils appelsíni. Eitt Lindu Konga. Sneið af marengs köku og sneið af brauðtertu. Ein pizza. Og verðlaunin fyrir að vera svona dugleg að borða matinn minn? 4.4 kíló í plús. Ég er ekki svekkt eða fúl; ég vissi að þetta myndi gerast, líkami minn bara þolir núll áreiti. Ef ég slaka á í eina mínútu þá fitna ég aftur. Það fær maður í verðlaun fyrir að hafa verið í megrun í 25 ár. En ég er smávegis pirruð, pirruð á sjálfri mér að þrátt fyrir að hafa öll mín vopn með mér þá hrundi ég í það eftir 5 daga á Íslandi, pirruð á að mega ekki fara í frí og borða íslenskt nammi, pirruð á að vera aftur yfir hundrað kíló, pirruð á mat, pirruð á mér, pirruð á þessu helvíti öllu saman. En ég er ekki pirruð á lífstílnum. Ég byrjaði aftur í ræktinni á þriðjudag, hlakkaði meira að segja til að fara að lyfta aftur. Fór beint í að búa til matseðil og pantaði mér fíkjur fyrir ævintýri í grænu. Byrjaði strax að skrá, vigta og telja. Ekkert mál. Eins og ekkert hefði í skorist. Og það gerir mig glaða. Ég sá utan á Vikunni þegar ég var heima fyrirsögnina "missti 106 smjörlíkisstykki á einu ári!". Ég las ekki greinina en stúlkan hafði semsé lést um 53 kíló á einu ári. Ég get ekki neitað að um leið og ég innilega óskaði samfitubollu minni alls hins besta þá helgreip öfundsýkin mig. Afhverju get ég ekki gert þetta svona hratt og örugglega? Meðaltalið mitt er 750 grömm á viku. Það á eftir að taka mig mun lengur en ár að gera þetta. Sér í lagi ef ég þyngist um 5 kíló í hvert sinn sem ég fer í frí. Á hinn bóginn þá er ég líka búin að leita í hjarta mínu og ég er bara ekki til í að gera þetta öðruvísi en ég er að gera núna. Ef ég borða minna en 1000 kalóríur yfir daginn fer líkaminn í sjokk og heldur enn fastar í fituna. Þannig að ég er svöng og léttist ekki og það er bara ávísun á stórslys. Ég æfi eins mikið og ég hef tíma í. Ef ég geri meira þá verð ég leið og gefst upp. Fyrir mér er þetta allt um meðalveginn. Þannig að slow and steady does it for me. Ég verð bara að sætta mig við það. Og þess vegna má ég ekki vera pirruð. Og ég má ekki vera fúl. Ég verð bara að muna að ég tók hverja einustu ákvörðun um að velja, kaupa og borða íslenska nammið mitt. Og að ég naut hvers einasta bita. Og ég verð að muna að hver einasti munnbiti er mér þetta dýrkeyptur. Og næst þegar ég kemst í íslenskt nammi hef ég lofað sjálfri mér að hugsa mig vel um. Muna bragðið í munninum, muna tilfinninguna, muna tilfinninguna í maganum, muna hvað vigtin segir og ákveða svo hvort það sé þess virði. En núna þýðir þetta að 30 kílóa markið um jól verður þetta aðeins erfiðara. 95 kíló 24. desember. Nú er bara að vinna í því og gera sitt besta.


Ísland. Er að sjálfsögðu best í heimi. Mikið sem ég skemmti mér vel. Ég á án efa ekki bara bestu og fallegustu vini í heimi heldur er ég alveg ótrúlega heppin með fjölskyldu líka. Lúkas á sjálfsagt seint eftir að gleyma 6 ára afmælinu sínu. Og allt út af stórfjölskyldunni minni. Ég er alltaf að sjá betur eftir því sem ég eldist hvað það er mikilvægt að eiga stóra fjölskyldu. Og ég hef lofað sjálfri mér að ég ætla að reyna að vera duglegri við að halda hópinn.


3 ummæli:

Harpa sagði...

Æ þú ert svo dugleg og mikil hetja. Alveg ótrúleg hreint út sagt! Þetta kemur allt hægt og rólega, bara vera þolinmóð.
Mikið var gaman að sjá þig og ykkur.

Asta sagði...

Frábært að sjá hvernig þú skrifar þig út úr og í gegnum þetta, elsku Baba mín - ekki gefast upp! Þú ert ótrúlega falleg og flott kona sem verður bara fegurri með hverri stundu, hvernig sem þú ert í laginu á þeirri stundu :)

Þegar þú verður orðin eins og stundarglas í laginu muntu sjá að þetta er aðeins stundarfas í faginu ;)

Mússí til þín, elsku vinkona :*

Nafnlaus sagði...

Elsku fallega og frábæra vinkona!

Þú ert rosalega dugleg og ég dáist að hreinskilni þinni hér inni. Ég held að þín leið sé einmitt svo skynsamleg þegar til lengri tíma er litið. Flottur lífsstill sem gengur algjörlega upp fyrir þig. Við misstígum okkur stundum í hinu og þessu. Lykillinn er að láta það ekki fara með sig heldur halda áfram eins og ekkert hafi í skorist. Og auðvitað reyna að læra af mistökum ;-)
Love, Ólína