Ég hlóð inn öllum upplífgandi og upplyftandi rokklögunum mínum á i-podinn, stillti hlaupaprógrammið á 30 mínútur, setti tölvukubbinn í nýju hlaupaskóna mína, fann til úlpu, húfu og vettlinga og fór svo að sofa í gærkveldi með jafnan skammt af fiðringi og tilhlökkun. Á morgun, á morgun tek ég loksins næsta skref á þessu ferli mínu, næsta skref sem á eftir að skila mér endurnýjuðum krafti og árangri. Og vaknaði svo í morgun við óveður. Allt hvítt, og það sem verra er að undir snjónum er það sem Bretinn kallar "Black Ice". Frosin loftraki sem býr til þá mestu flughálku sem ég hef nokkurn tíman kynnst. Og ég þori ekki að hlaupa í þessu. Hnéð er nógu viðkvæmt fyrir þó að ekki bætist við að ég læsi því til að passa að ég fljúgi ekki á rassinn. Ég er smá hrædd við að ég sé að búa til afsakanir, en er eiginlega alveg viss um að svo sé ekki, það er einfaldlega ekki fært. Smá setback en ég bíð bara róleg eftir betra veðri. Það hlýtur að hlána bráðum.
Annars þá er veðrið kannski ekki það sem Íslendingar kalla vont, en munurinn er að hér er fólk svo illa undir þetta búið. Sem ég skil ekki alveg, ég meina Bretland er á Norðurhveli jarðar eftir því sem ég best fæ séð. Fólk kann ekki að klæða sig, kann ekki að keyra í þessu, er á sléttum sumardekkjum og það sem verst er býr í húsum sem eru óeinangruð og hituð með rándýru gasi sem ekki allir hafa efni á. En svona er þetta á hverjum vetri. Og svo getum við alltaf vonað að það snjói það mikið að ég verði send heim úr vinnunni. Það væri ekki svo vitlaust.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli