fimmtudagur, 14. janúar 2010


Það er allt með kyrrum kjörum hérna á baðvoginni minni, allt stendur í stað. Ég er eitthvað að segja við sjálfa mig að þetta sé vegna þess að ég sé á vissum stað í kvenlegri hringrás og að þetta sé eðlilegt fyrir mig, léttist mikið eina viku, smá þá næstu og svo ekkert í tvær. Svo byrjar rútínan aftur. Þetta gæti líka verið með það að gera að þrátt fyrir að hafa verið trú og trygg sjálfri mér og heilbrigðri skynsemi hvað mat varðar síðan á mánudag þá var sunnudagur sérlega skrýtinn, uppfullur af heitri eplaköku og vanilluís. Maður uppsker sem maður sáir. Þetta er mjög einföld reikningslist, kalóríur inn, kalóríur út. Og svona er það bara. Hvað um það. Ég og Lúkas vorum heima í gær, skólinn hans var lokaður og svo var einnig um skrifstofuna mína. Þegar það er svona kalt úti og maður hefur nógan tíma þá er um að gera að búa til góðan mat. Við borðum vanalega ekki kvöldmat saman út af vinnutímanum mínum þannig að það er alveg spes gaman þegar við höfum tíma til að gera það. Ég eldaði stormsúpu, þykka grænmetissúpu með hnausþykkum pancetta bitum. Og bakaði brauð með. Ég dúllaði heilmikið við brauðið, blandaði saman ýmsum grófum hveititegundum og korni, notaði hnoðkrókinn á hrærivélinni í góðar tíu mínútur og lét það svo lyfta sér og lamdi niður þrisvar sinnum. Dúllaði svo við að búa til svona fallegan bolluhring. Og þetta var allt þess virði, besta brauð sem ég hef bakað. Þetta var góður dagur, og góð kvöldstund saman.

2 ummæli:

Guðrún sagði...

Þá vaknar spurningin hvort Lúkas hafi borðað súpuna og brauðið.

Hulda sagði...

Nákvæmlega...borðaði hann?