|
96, tel og tel og tel. |
|
Rúm 130, fyrir talningu |
Það hlýtur að vera afskaplega erfitt fyrir óreynda að reyna að byrja að lifa heilsusamlega; hreyfa sig og borða hollan mat. Þetta að greiða úr allri upplýsingaflórunni hlýtur að vera martröð. Hvar á maður eiginlega að byrja, hvaða aðferð á að velja? Ég sjálf gerði mér ekki grein fyrir að þetta gæti verið svona flókið því mér finnst einhvern vegin að ég hafi fengið kalóríutalningu með móðurmjólkinni. Ég hef bara alltaf vitað kalóríu innihald á flestum matvælum og get á eldingarhraða lagt saman í huganum hvað samsett máltíð telur í hitaeiningum og hlutföll af næringarefnum. Ekki biðja mig að gera upp heftið mitt, en hitaeiningareikningur liggur alveg ljós fyrir mér. Ég gerði mér bara ekki grein fyrir því að það væri fólk sem hefur aldrei spáð í þessu og þarf svo að læra þetta allt frá upphafi. Þannig að þegar að ég er spurð hvaða aðferð sé best til að léttast og ég segi "telja kalóríur" þá á ég skilyrðislaust við að það það sé best fyrir mig. Ég á það til að vera ofboðslega hrokafull og halda því fram að ég sjái, skilji og viti. En ég er alveg komin á þá skoðun að allar þessar reglur um hvað má og hvað má ekki, hvað sé gott og hvað sé vont að gera til að komast í kjörþyngd og vera heilbrigður er bara rugl. Það þarf að taka langan tíma í að prófa sig áfram og finna út hvað best virkar fyrir mann sjálfan. Meira að segja ef það þýðir að gera mistök. Eiginlega sérstaklega ef það þýðir mistök. Fyrir mig virkar það að vigta mig. Ég skil markmiðið 75 kíló og þá ætla ég bara að nota vigtina sem aðstoðarmann til að komast þangað. Og það þrátt fyrir að flestar ráðleggingar frá sérfræðingum segi að það sé ALVEG BANNAÐ að lifa og deyja með vigtinni. Fyrir mig virkar að telja kalóríur, svo lengi sem ég passa líka að fá góð hlutföll úr öllum fæðuflokkum. Samt er mjög algengt að sjá að það sé ALVEG BANNAÐ að telja kalóríur af því að maður eigi að einbeita sér að því að fá réttu næringarefnin fremur en að festa sig í fortalningu á hitaeiningum. Fyrir mig virkar að setja mér markmið og það skýrt og upphátt. Það er ekki nóg fyrir mig að hugsa einu sinni að ég taki þá ákvörðun að fá mér ekki nammi; ég þarf að segja við sjálfa mig upphátt á hverjum morgni: "Í dag ætla ég ekki að borða nammi." Þetta held ég reyndar að allir sérfræðingar væru ánægðir með, andlega hliðin á þessu veseni öllu liggur betur fyrir sérfræðiráðum. Ég skil ekki afhverju það er slæmt að festa sig í ákveðinni kílóatölu, ef það skilar því að maður er heilbrigður og hraustur. Kannski er viðhorf mitt öðruvísi af því að ég er að koma frá 130 kílóum. Ef maður er 68 kíló og langar til að vera 63 þá er kannski mikilvægara að setja sér "hreystimarkmið" frekar en að festa sig í tölu. En þegar maður er þetta svakalega feitur þá er lífsnauðsyn að skoða tölurnar til að halda sér við efnið. Það er það sem sést best fyrst og er best mælanlegt fyrst. Og ég er búin að prófa að hætta að fylgjast með vigtinni og það virkar ekki. Fyrir mig. Ég held því fram að það sé ekkert sem er ALVEG BANNAÐ. Meira að segja kreisí kúr þar sem maður borðar ekkert nema 18 harðsoðin egg á viku. Endilega prófa það. Maður fattar á degi tvö að það virkar ekki. En maður verður að fatta það sjálfur, það getur enginn fattað neitt fyrir mann alveg eins og það getur enginn mætt í ræktina fyrir mann og haldið uppi sjálfsaganum fyrir mann. Það er bara með því að prófa sig áfram þar sem maður fattar hvað virkar í alvörunni. Vísindin breytast nefnilega stanslaust, það sem eru óhrekjanleg sannindi í dag eru bábiljur og kellingabækur á morgun.
2 ummæli:
Nákvæmlega! Lokaorðin þín eru kannski þau bestu því að í baráttunni við sjálfan sig (í hverju sosum þessi barátta felst) er mikilvægasta uppgötvunin (og þá meina ég þegar það í alvörunni rennur upp fyrir manni) er að maður ber fullkomna ábyrgð á sjálfum sér.
Stórt knús á þig þú fallega kona.
Hanna
það er nefninlega svo magnað að það erum víst bara við sjálf sem getum breytt einhverju hjá okkur sjálfum...ekki aðrir, ég tel ekki kalóríur...það hentar mér ekki...eða nenni því ekki ;) ég bara geri það sem mig langar...ég var t.d búin að hlusta á mínar vinkonur tala um líkamsrækt, hollt mataræði, hlaup, pilates, og allt það og datt ekki í hug að ég ætti að taka þátt í þessu líka...bara datt það enganveginn í hug! Mér þóttu þetta bara viðbjóðslega leiðinlegar umræður, eins og barnaumræður, og hugsaði bara um eitthvað annað á meðan þær rausuðu um allt þetta holla, sallöt og hvað annað ;). Ég fattaði þetta svo sjálf...bara afþví að ég fattaði þetta og fann það hjá sjálfri mér hvað ég vildi gera...hefði ekkert verið verri manneskja ef ég hefði ekki fattað það...er það nokkuð? ;). Mér finnst þú hrikalega dugleg og lítur alveg svakalega vel út eldkuleg :D. Hamingjan skín af þér :D. OMG hvað ég sakna þín :/
Skrifa ummæli