|
Man vs. Food |
Það er mikil guðsmildi og blessun að ég hafi svona gaman af því að elda og stússast í mat og uppskriftum. Ég skil eiginlega ekki fólk sem getur breytt um lífstíl án þess að elda mikið. Það hlýtur að þurfa að reiða sig á 100 kalóríu snakk pakka og weight watchers örbylgjumáltíðir. Sjálf held ég að ég myndi bara drepast ef ég gæti ekki hugsað um, skoðað, velt fyrir mér og tilraunast með nýjar uppskriftir og nýtt hráefni stanslaust. Reyndar er svo komið að margar máltíðir sem hafa fengið gæðastimpil frá Dave ("this one can come back") er ég búin að gleyma. Ég er alltaf að prófa eitthvað nýtt og svo man ég ekki lengur eftir hinu og þessu sem ég hef skapað. Ég skrifa nefnilega aldrei neitt niður, vigta fátt og það er bara heppni ef ég man eftir að setja uppskrift inn hér áður en ég gleymi hráefninu. Þessari matarást allri fylgir náttúrulega gífurlegur áhugi á matreiðslubókum og matreiðsluþáttum í sjónvarpinu. Hugh Fearnly-Whittingstall í River Cottage er mitt uppáhald af því að hann er svo eðlilegur eitthvað og ég dáist að þessu sjálfbæra veseni öllu. Ina Garten, the Barefoot Contessa er líka í miklu uppáhaldi, af því að hún er feit og henni finnst matur svo góður og allt sem hún gerir er svo fallegt. Svo finnst mér líka svo fyndið þegar hún segir "half a cup mayonnaise" en setur svo tvo bolla í skálina. Hairy Bikers eru líka æðislegir en það er örugglega bara af því að ég gæti endalaust hlustað á Geordie eða Newcastle framburðinn. Ég hef enn ekki fundið neinn í sjónvarpinu sem eldar hollan mat sem mér finnst aðlaðandi. Ég stússast frekar bara í að breyta uppskriftum sjálf. Að horfa á góðan matreiðsluþátt er mitt litla klám og ég nýt þess í botn.
Ég datt svo inn á þátt um daginn sem ég er húkkt á núna og það jafnhendis af aðdáun og ógeði.
Man vs. Food er ekki beinlínis matreiðsluþáttur þar sem það eru engar uppskriftir en við fylgjumst hinsvegar með kynninum ferðast á milli borga í Bandaríkjunum og naga sig í gegnum allan þann mest djúsí mat sem hann finnur á hverjum stað. Í flestum þáttunum tekur hann þátt í "food challenge" þar sem hann þarf að borða viðbjóðslegt magn af tilteknum mat innan tímamarka. Ég elska amríska matargerð, og þá er ég ekki að tala um McJónas og Kentucky, heldur alvöru amrískan mat, pönnukökur, cheesesteak, fudgecake, biscuits, chowder, ribeye, pecan pie, muffins, ostakökur og ís. Alvöru steikarsamloka á alvöru greasy spoon í miðvesturríkjunum er besti matur sem hægt er að fá. Og að horfa á kynninn fara inn á þessa alvöru staði hingað og þangað og fylgjast með þeim setja saman ommilettur, samlokur, krabba og fudge brownie ís er svo mikið klám fyrir mig að ég horfi á eldrauð í framan af blygðun. Á sama máta er ég við það að gubba af því hversu hrikalegt það er að fylgjast með svona skammarlausu ofáti þegar það er bæði til fólk sem sveltur og fólk sem er að drepa sig á ofáti? Það er einhvernvegin ekki rétt að horfa á fólk vera með svona gleðilæti yfir ofgnótt þegar gæðum heimsins er svona misskipt. Engu að síður, þá horfi ég heilluð á. Ég læt það reyndar vera að reyna að búa til hollar útgáfur af matnum, sumt á bara að vera djúsí. Og í hæfilegri fjarlægð frá mér. Eins eitt Atlantshaf eða svo.
Talning stóð í 97 á laugardagsmorgun.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli