|
Á stússi í Wrexham |
Stutt gaman en skemmtilegt; nú er bestu mamma og pabbi farin aftur heim og lífið fer víst aftur í einhvern vanagang, hvernig sossum hann nú er. Þetta var að sjálfsögðu æðislegt að hafa þau hér hjá okkur en ég ætla ekki mikið að dvelja við það núna því ég verð svo döpur þegar ég hugsa um að nú veit ég ekki hvenær ég sé þau næst. Ég er svo heppin að þau eru 100% með mér í þessu brölti mínu öllu og þessvegna var auðveldara fyrir mig að fylgja planinu. Kannski ekki alveg hundrað prósent (ég skora á hólm hvern þann Ítalskra pizzuaðdáenda sem hefðu getað gert eins og ég og hætt við fjórðu sneið á Piccolino í Chester) en nóg samt til að ég er ekki með kvíðahnút fyrir mælingum á laugardag. Blómkálstilraunirnar héldu áfram og ég get svo svarið það ég hef bara sjaldan verið eins spennt fyrir neinu og þessu. Fyrir mér er trixið algerlega fólgið í að raspa blómkálið niður svo það sé "hrísgrjónað", annars er maður bara að borða gufusoðið blómkál, en ef það er raspað í spað þá má til dæmis setja út á það bolognese sósu og smá parmesan og manni er nokk sama um að það sé ekkert pasta. Það má setja það með indverskum og þá skiptir engu máli að engin hrísgrjón eða naan fylgi. Þetta er með ólikindum en heilagur sannleikur. Eftir smá tilraunir þá er ég komin niður á þessa aðferð. Ég tek einn blómkálshaus og brýt í svona 5 parta. Set í skál og plast yfir og inn í örbylgju í 5 til 6 mínútur. Ekkert vatn með. Svo út og læt aðeins þorna áður en ég raspa niður með grænmetisrasp. Ég get svo geymt það sem útundan verður í ísskápnum og hitað upp við næstu máltíð. Klikkað.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli