föstudagur, 10. desember 2010

Alltaf svo ánægð með þetta allt!
Í fyrramálið ætla ég að mæla mig alla og vigta samkvæmt kúnstarinnar reglum. Ég á alltaf í sama stríði við sjálfa mig í sambandi við vigtina. Heilbrigði, skynsami hluti heilans veit að hún skiptir svoooooo litlu máli í þessu stóra samhengi. Klikkaði hluti heilans vill bara fá að sjá tölur niður á við og grætur þegar það gerist ekki. Til að sporna við klikkaða hlutanum ætla ég að horfa á þessa mynd áður en ég stíg á vigtina. Hún var tekin í kvöld þegar ég kom heim frá jólahádegishlaðborðinu með vinnufélögunum. Þar sem ég borðaði eðlilegan skammt af kalkún og kartöflum og afþakkaði pent alla eftirrétti. Og ég ætla að horfa myndina sem sýnir mér greinilega að ég er að minnka. Og ef vigtin segir eitthvað sem klikkaði hlutanum líkar ekki þá á ég myndina sem sönnunargögn um að það er vigtin sem er klikk. Ekki ég.

5 ummæli:

Erla Guðrun sagði...

Bloggið þitt er DÁSAMLEGT. Ég rambaði inn á það í gærkveldi og ætlaði bara rétt að skoða það en endaði á að lesa það til að verða þrjú í gærnótt.

Ég get ekki lýst því hversu yndislegt það er að lesa að einhver eins og þú sem ert búin að ná svona gífurlegum árangri að fá að vita að þú svífur ekki alla daga á spínatsgrænu ský og að þú lítir stundum á hreyfingu sem svona leiðindaverk sem þarf að vinna en ert ekkert að deyja úr spenningi yfir því.

Fyrir nokkrum árum veiktist ég af gigt, á tveimur mánuðum fór ég úr að vera venjuleg manneskja í að geta varla tannbursta mig né greitt á mér hárið. Við tók þrotlaus vinna að byggja sig aftur sem fól meðal annars að borða úber hollan mat, hreyfa mig reglulega og reyna eftir megni að sleppa öllu hvítu hveiti, sykri og fleira í þeim flokki.

Í dag er ég orðin nokkuð góð en ég hef aldrei náð þessu alsælu stigi sem svo margar hafa lýst þegar þau hafa tekið matarræðið í gegn. Mig langar enn í mat sem er uppfullur af sykri og ég borða enn mat sem er uppfullur af sykri. Ég á oft í svo miklu sálarstríði við sjálfan mig og álása sjálfri mér þegar ég breyti ekki í samræmi við það sem kemur minni heilsu best. Ég tala nú ekki um það þegar ég les viðtöl við fólk um að það láti ekki inn fyrir sína varir sykurörðu því að það veit að það sé ekki hollt fyrir sig o.s.frv.

Ég var bara pínu lítið farin að halda að það var eitthvað stórvægilegt að mér fyrir að hafa ekki enn náð þessu alsælustigi: að það hvarli aldrei að mér að setja óhollan mat upp í mig, þrátt fyrir að hafa bisað í næstum fjögur ár að borða hollan mat og hreyfa mig til að halda heilsunni í lagi.

Ekki misskilja mig, mér líður betur þegar ég hreyfi mig og borða hollan mat. Ég verð líka bara oft ótrúlega öfundsjúk út í fólkið sem getur gúffað hverju sem er í sig sem og fólkinu sem samkvæmt viðtölum í tímaritum (ég þekki enga svoleiðis manneskju í raunveruleikanum) breytti matarræðinu og þetta sé bara allt annað líf og þetta hafi ekki verið neitt mál o.s.frv.

Mig langar bara oft til að fara að grenja þegar ég les svona viðtöl því ég á oft í baráttu við mig að borða hollan mat og ég dett oft út af sporinu (held þó alltaf áfram)þó að ég viti að besta fyrir mig sé að sneiða framhjá mat með sykri og mikið unnum matvörum.

Þess vegna var svo DÁSAMLEGT að lesa bloggið þitt. Ég held að ég hafi aldrei áður lesið frásögn hjá manneskju sem hefur náð svona miklum árangri, bæði í að missa kíló sem og að bæta matarræði sitt og hreyfingu, sem talar um að þetta sé drullu erfitt á köflum að halda sér á réttri braut og að þú viljir alveg ennþá stökkva á sykraða matinn og stundum gerir þú það jafnvel en þú virðist allavegana samkvæmt blogginu þínu alltaf halda áfram á réttu brautinni.

Ég vildi bara óska þér góðs gengis fyrir næstu áfangana hjá þér og þakka þér innilega fyrir bloggið. Þú afsakar hvað þessi athugasemd er orðin löng, þetta er orðið meira í átt að aðdáunarbréfi:)

murta sagði...

Takk kærlega fyrir Erla Guðrún, mig vantar nefnilega oft að heyra þetta líka, að ég sé ekki ein svona skrýtin að geta ekki bara umfaðmað repjuolíu og hvannarót og gleymt kitkatinu. Það er það allra, allra mikilvægasta við þetta stríð að fá að vita að við erum ekki ein. Þetta er svo miklu skemmtilegra að gera þetta saman. Takk fyrir mig. x

ragganagli sagði...

Svo sammála Erlu Guðrúnu, bloggið þitt er svo dásamlega einlægt, og ég held að allir (konur sérstaklega) finni sig í svo mörgu sem þú segir. Þetta er barátta hjá okkur öllum á hverjum einasta degi. Það líður ekki sá dagur að mig langi ekki að stinga mér ofan í nammikassann og baða mig í lakkrís og suðusúkkulaði. En með því að taka bara einn dag í einu, jafnvel eina máltíð í einu styrkjum við heilbrigða lífsstílinn með vellíðan og hamingju... þó að púkinn í hausnum þagni aldrei.

Finnst yndislegt að fá að taka þátt í baráttunni með þér mín kæra.

Guðrún sagði...

Ég er bara klökk yfir því, Dabbilóin mín, að finna að þú átt sterkara bakland en bara mömmu og pabba. Gaman að vita að bláókunnir njóta skrifanna þinna. Enda einlægni sem slær alltaf í gegn.

Nafnlaus sagði...

Sammála öllum athugasemdunum hér að ofan. Nú er bara að byrja á bókinni :-)Sakna þín, væri svo til í að hitta ykkur núna um jólin. Knús og kiss, Lína