Einn af mínum uppáhalds leikjum sem ég fór í þegar ég var lítil, svona rétt að komast á táningsaldur, var "veitingahúsaleikur" með Ólínu. Við grilluðum okkur fínar samlokur með osti og tómatsósu, settum drykk í fín glös og lögðum á borð. Settum út servéttur og hnífapör og sátum svo við borð og nutum matarins og spjallsins. Þó svo að í minningunni sé grilluð samloka með osti og tómatsósu ein af mínum uppáhalds máltíðum (held að ég sleppi því að prófa núna bara svona til að skemma ekki minninguna svona ef þetta er ekki jafn gott og mig minnir) þá var ánægjan svo sannarlega ekki falin í matnum sjálfum heldur í viðhöfninni og félagskapnum. Það að leggja fallega á borð, setjast niður og tala saman gerði athöfnina að borða að einhverju alveg spes. Þetta er eitt af því sem ég hef nýtt mér og held að sé rosalega mikilvægt í því hversu vel mér hefur gengið í breyttum lífstíl.
Ég skammta fallega á disk og reyni að hafa ekki á boðstólum full föt af mat, heldur er hver diskur bara máltíðin. Eins og á veitingastað.
Ég legg eins fallega á borð og hægt er með hvítum tauservéttum og kertum og fallegum glösum.
Ég reyni af fremsta megni að hafa matinn eins fallegan og hægt er, hugsa um samsetningu á litum og áferð.
Við situm oftast lengi og spjöllum yfir matnum ég og eiginmaðurinn. Og ég er að reyna að venja Láka á að taka þátt í umræðunum.
Ég geri það sama við nestið mitt í vinnunni. Ég pakka því fallega og set með servéttu og hnífapör og nýt svo hvers bita þó ég sitji bara við skrifborðið.
Og svo er það bara bon appetít!
5 ummæli:
Enda varstu ekki alltaf ánægð með gamla settið þitt í "den" þegar við vorum sest inn á veitingastað og settumst niður og náðum okkur ekki í spjall alveg strax. Þú reyndir eins og þú gast að ná upp spjallstemmingu. Mér dettur þetta alltaf í hug þegar ég sest niður á veitingastað.
Kannast vel við svona. Við skömmtum einmitt alltaf á diskana frammi í eldhúsi áður en við berum matinn fram inni í borðstofu. Við gamla settið sitjum svo oft áfram við borðið, löngu eftir að stelpurnar eru farnar frá, og spjöllum um heima og geima.
Yndisleg stund alveg hreint.
Gleðilega páska mín kæra og ég vona að páskalambið smakkist vel.
Gleðilega páska sömuleiðis Inga Lilý, lambið fór vel niður enda ekkert betra lambakjöt en það velska :) Sá að þú hljópst í morgun, tók þig mér til fyrirmyndar og fór í fjallgöngu. Til að geta borðað meira brauð! :)
Dugleg varstu. Já ég neyddist til að hlaupa þar sem ég hef ekki sjálfsagann í að neita mér um Nóa páskaegg! :)
Dró svo stelpurnar út í göngu, kallinn var með ljósmyndasýningu ca 5 km frá húsinu okkar svo ég neyddi þær til að labba þangað og svo langleiðina heim aftur (leyfði þeim að fara í strætó síðustu 3 km).
Toppaði svo allt með því að hlaupa 13 km í morgun. Vona að þetta skili einhverju þar sem átið var aaaalveg ágætt í gær og um helgina alla.
Hahaha....þessi leikur var snilld. Var einmitt að segja dætrunum frá þessu um daginn :-)Ég verð nú að viðurkenna að einstaka sinnum fæ ég mér grillbrauð með tómatsósu og osti!!
Sammála að fallegt borð skiptir miklu máli. Sniðugt að leggja á borð áður en farið er í matseldina...maturinn verður bara betri.
Páskaknús, Ólína (sem er gjörsamlega súkkulaðimarineruð!)
Skrifa ummæli