fimmtudagur, 9. júní 2011

Ég vann í hring. Það er að segja ég var farin að vinna of marga tíma í einu og átti orðið á hættu að fá yfiryfirborgað og það vill bankinn ekki. Þannig að ég fékk aukadaga í frí, fimmtudag og föstudag. Fór með Lúkas í skólann í morgun, eitthvað sem er sjaldgæft góðgæti fyrir okkur bæði. Hann þarf vanalega að fara í Breakfast Club sem honum finnst ekki gaman enda bætir það klukkutíma við skóladaginn. Ég hinsvegar fæ mjög sjaldan að sjá skólann hans eða koma þangað þannig að fyrir mig er þetta lífsnauðsyn öðru hvoru svona til að halda sambandi við kennarana og starfsemina alla. Það er mjög óþægilegt sem foreldri að vita aldrei hvað er í gangi. Þegar hann var kominn í skólann rauk ég niður til Wrexham og í rækt. Eyddi þar tveimur klukkutímum, hoppaði og lyfti og hljóp bara svona að gamni mínu. Það er þvílíkur munur að stunda líkamsrækt þegar maður hefur nógan tíma. Vanalega er ég með annað auga á klukkunni, þarf annað hvort að komast í vinnu fyrir ákveðinn tíma eða ná síðasta strætó heim. Það er líka mjög fitubolluvænt að koma í rækt á þessum tíma dags, þarna var ég ein og gerði burpees hægri vinstri án þess að nokkur maður sæji til mín. Þannig að ég hoppaði eins og mig lysti algerlega áhyggjulaus um hvernig ég liti út við aðgerðina. Gerði mig svo sæta og rölti um miðbæinn í rólegheitum. Skoðaði í búðir og keypti einn kjól. Mátaði að gamni í 14 og þó hann hafi setið fínt á mjöðum og maga þá voru brjóst ekki alveg sammála og krumpuðust skringilega aftur í herðablöð. En hann var æðislega fínn í 16 og ég skellti mér bara á hann. Sat svo í mestu makindum á Café Nero, drakk skinny latte og las bók. Kom svo heim og hannaði kalkúnakjöthleif áður en ég náði í Lúkas til Cole vinar síns. Nú hef ég það að markmiði að verða "lady of leisure". Mikið sem ég gæti eytt mínum dögum svona. Rækt, búð, kaffihús, tilraunaeldhús. Er enginn til í að borga mér fyrir það?

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Bara flottur kjóll!! En já svona dagar eru æðislegir :)
Gunnhildur

murta sagði...

Bestir í heimi :)