laugardagur, 20. ágúst 2011

Innri hlussan mín er lítið barn sem aldrei hefur fengið að þroskast og vaxa úr grasi. Ég ímynda mér þetta eins og að sjá móður segja við stelpuna sína að hún sé ógeðsleg þegar hún biður um súkkulaði. Að hún sé ógeðslegur aumingi sem eigi ekki súkkulaði skilið. Móðir sem segir að stelpan sé veiklunduð, að hún sé ekki eins og fólk er flest og að hún eigi að skammast sín og fela það sem hún gerir. Skammast sín fyrir veikleika, fyrir hvað hún stendur sig illa, hvað hún sé mikill lúser. Barn sem elst upp við þessar aðstæður hlýtur að eiga erfitt með að fóta sig í lífinu. Ég veit að ef ég vissi af móður sem kæmi svona fram við barnið sitt væri ég búin að hringja í yfirvöld. Það getur enginn þroskast og dafnað við svona aðstæður. Hvað í ósköpunum hefur þá gefið mér leyfi til að koma svona fram við hlussuna inni í mér? Ekki nema von að greyið sé hnípin og hvekkt og ekki nema von að hún fái uppreisnarköst öðru hvoru á milli þess sem hún getur ekki andað af ótta við refsingarnar og af samviskubiti.

Það er eiginlega nóg komið núna. Það er ekki nóg að ég komi fram við mitt æðra sjálf af kærleika, visku og mildi. Mín innri hlussa þarf ástúð, stuðning og leiðbeinslu. Hún þarf að læra og skilja- hún þarf að fá að vaxa úr grasi til að geta tekið ákvarðanir sem eru fullar af visku og reynslu. Ákvarðanir sem fullorðin manneskja myndi taka.

Hugmynd tískuheimsins um fegurð og hamingju
Ég fór inn í Zara um daginn- Og ég fattaði þetta allt saman þar sem ég stóð inni í mátunarklefa að prófa buxur sem á stóð UK18. Ég er þægilegt UK16. Og þessar buxur rétt komust yfir hné. Ég fer inn í þessa búð til að refsa hlussunni. Zara er í mínum huga táknmynd fyrir allt það sem ég held að "gerist" þegar ég "verð mjó". Ég fái frábæra vinnu, ég fái glansandi hár, ég hætti að hafa óeðlilegan hárvöxt á hökunni, ég fái inngöngu í félagið sem segir að ég geti núna hætt að refsa mér fyrir aumingjaskap. Þar inni er allt hvítt og gler og stál og í röð og reglu og mjótt, mjótt, mjótt. En þar er líka allt bara yfirborðsfallegt. Þegar ég skoða flíkurnar í alvörunni finn ég aldrei neitt sem mig langar í alvörunni í. Þetta er blekking, alveg eins og dagurinn sem ég verð mjó er blekking. Og afþví að ég er alltaf eins og kýld í magann þegar ég máta föt þar inni (þeir eru með númerin minni en annarstaðar til þess eins að rífa mig niður!) þá fer ég alltaf þaðan út harðákveðin í að: borða minna, hreyfa mig meira, vigta mig oftar, taka út nammidaga, refsa, refsa, refsa. Og ég sá, þar sem ég stóð með buxurnar vafðar um hnén, að nú er nóg komið. Héðan í frá mun ég ekkert gera nema það sé komið til af alvöru kærleika og visku frá mér til mín.

Það sem virkaði fyrir mig fyrir tveimur árum síðan eða í gær þarf ekki endilega að virka fyrir mig í dag. Ég er glöð og þakklát fyrir allt sem ég hef gert og lært hingað til. En það er líka kominn tími til að breyta til. Allar þessar áskoranir og átök og tímabundnu, tímaskilyrtu markmið þjóna engum tilgangi lengur. Megrun breyttist í lífstíl en lífstíllinn er orðinn að megrun og megrun fylgir ofát. Og ég ætla ekki að láta kúga mig lengur. Ég ætla að lifa lífi mínu glöð og þakklát fyrir hverja stund og fyrir hvern munnbita og ég ætla að verða mér úti um þá visku sem ég þarf til að taka rétta ákvörðun hverju sinni og ég ætla að sýna sjálfri mér ekkert nema kærleika. Þessi fílósfófía að minna rassgat skipti í alvörunni einhverju máli er algerlega út í hött.

Ég ætla að kveðja kvalarann og leggja allt mitt í að bæta hlussunni upp allt það sem ég hef gert á hennar hlut síðustu 26 árin. Ég ætla að ala hana upp. Hún þarf að læra að verða vitur og góð og full af kærleika. Hún þarf að læra hvað er gott og hvað er rétt. Og stundum, stundum þarf hún bara að fá súkkulaði í morgunmat.

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Vá, hvað ég er sammála þér hér... það er virkilega sársaukafullt stundum, vitandi að manni gengur vel og passa svo alls ekki í föt sem eru númeri STÆRRI en maður vanalega notar... uss uss..
En vildi bara láta þig vita að í gær hljóp ég hálft maraþon - ég sem var 130 kg fyrir tveimur árum síðan og reykti eins og strompur ;) Anything is possible !!!!
Það er frábært að lesa bloggið þitt og veitir mér stuðning að lesa það ...
Kv. Gunnhildur

Nafnlaus sagði...

Kæra kynsystir, þú ert ennþá vond við sjálfa þig þegar að þú kallar þig "hlussu".Hlussa er alltof ljótt orð og engin góð móðir myndi kalla dóttur sína hlussu.

Ég rakst á þessa góðu grein sem heitir: Góðir og slæmir ávanar, í fréttablaðinu í gær:
http://vefblod.visir.is/index.php?s=5312&p=117081

Ég klippti hana út og plastaði og ætla að hafa hana fyrir framan mig eins lengi og ég þarf. Ég vona að þessu góðu orð geti hjálpað þér líka.

Takk fyrir góðan pistil.
Kv. Kristín Birna

Nafnlaus sagði...

frábær pistill að vanda! you go girl!!
kveðja, sigga dóra

Nafnlaus sagði...

Flottur og góður pistill :) Svo sannur ...
Sama og mamma sagði við mig fyrir örfáum dögum síðan. Maður þarf að ímyndina sér að það sem maður segir við sig sé maður að segja við lítið barn sem sitji fyrir framan sig .. ætli maður yrði þá ekki fljót að þagna ;)

kv. Ásta