laugardagur, 14. apríl 2012

Asics Gel Kayanos 17 og Nike Dri-Fit Compression sokkar.
Ég hef sjálfsagt enn verið eitthvað æst eða upprifin því ég spratt upp sem fjöður rétt eftir sex í morgun. Strákarnir mínir báðir enn hrjótandi þannig að ég ákvað að fara út og prófa nýju hlaupaskóna mína. Ég hafði lagst í þónokkrar rannsóknir áður en ég valdi að kaupa mér Asics Gel Kayano 17. Það er reyndar komin út 18 líka en dómarnir um þá sögðu litlar breytingar frá 17 gerðinni þannig að ég sá ekki ástæðu til að borga meira fyrir aðeins nýrri hönnun. Samt. Ég hef aldrei borgað svona mikið fyrir hlaupaskó áður. Ég er "over pronator" og þarf stuðning ásamt þvi að vera algerlega með flatan fót. Ég þarf líka að taka tillit til að vera þung og skoða skó með það í huga. Eftir mælingar, pælingar, mátanir og japl, jaml og fuður mikið ákvað ég að kaupa þessa. Asics af því að ég hef alltaf átt asics og bara vil ekki prófa neitt annað. Síðustu skórnir sem ég fékk voru hannaðir með utanvega hlaup í huga, þeir eru með grófum botni og eru regnheldir og svona meira solid. Góðir en dálítið þungir. Skórnir þar á undan, Asics GT2160 voru geðveikir. Ég fór í þá og frá fyrsta hlaupi var eins og þeir hlypu fyrir mig. Ég spændi þá upp að lokum, er búin að hlaupa rúma 250 kílómetra í þeim. Ég borgaði næstum helmingi meira fyrir Kayano skóna en fyrir GT parið. Og verð að viðurkenna að ég varð fyrir örlitlum vonbrigðum. Kannski þarf ég að venjast þeim. Var nú samt að vonast eftir þessari sömu tilfinningu og þegar ég fyrst fór í GT parið og leið eins og ég væri á flugi. Gefum þeim aðeins sjéns.

Það var líka erfitt að hlaupa í dag. Læri voru stirð og þreytt og ég var í gömlum brjóstahaldara þannig að ég var bara út um allt. Hausinn alveg í lagi í dag. Þetta voru einungis líkamlegir erfiðleikar. Og ég komst að mikið merkilegri fílósófískri niðurstöðu. Þegar hausinn er í lagi get ég þröngvað líkamanum til að gera ótrúlegustu hluti, alveg sama hvað hann kvartar og kveinar. En þegar hausinn neitar að leika er nánast útilokað að gera nokkurn skapaðan hlut, meira segja þó líkaminn sé fír og flamme. Þetta er ALLT í hausnum á manni. Þannig að ég hljóp upphitunarkílómetrana, spretthlaup upp brekku, spretthlaup á flötum velli og svo 20 mínútur fartlek. Allan tíma vældu læri og brjóst en ég hló bara að þessum aumingjaskap. Það er nefnilega alveg lífsnauðsynlegt að komast í gegnum þessar erfiðu æfingar. Því að þegar maður kemst í gegn um þær og svo næst þegar maður fer út lendir maður kannski í góðu hlaupi. Þessu þegar hjarta og heili vinna saman. Þegar fætur og andardráttur eru í fullkomnum takti. Þegar maður getur hlaupið og hlaupið og hlaupið. Þegar maður slekkur á heilanum og ekkert kemst að annað en næsta fótatak, næsti andardráttur. Og eitt og eitt erfitt hlaup er sko þess virði til að komast í þetta góða.

Engin ummæli: