sunnudagur, 1. apríl 2012

Mark Knopfler hringdi. Hann vill fá svitabandið sitt tilbaka. 
Ég fékk forláta eyrnaskjólshausband í afmælisgjöf frá vinkonum mínum og varð alveg húkkt á því. Ekki bara að það haldi eyrum heitum en haus ofhitnar ekki og hár þarf ekki að fara í kuðl inni í neinni húfu, þá heldur það einnig enni svitalausu og í ofan á lag þá finnst mér ég vera geðsjúklega sæt með það. Geðsjúklega. En nú er komið sumar. Og síðustu tvö hlaup hef ég verið kjánaleg með það á hausnum. Það er bara ekki nógu kalt lengur. En ég get bara ekki verið "nakin" á hausnum lengur! Ég smellti mér þessvegna í Sport Direct í dag og hreinlega keypti mér svitaband. Og er nú albúin til að taka sumarið með trompi. (Ég á líka orðið hlaupastuttbuxur, en er enn tvístígandi yfir þeim).
Mér var því ekki til setunnar boðið í morgun og ákvað að taka nýjan hring til að vígja svitabandið. Ég prófaði að hlaupa í gegnum Pen-Y-Cae (penníkæ), framhjá Plas Bennion, niður í Ruabon og svo Johnstown og upp í Rhos aftur. Gullfalleg leið og sólin skein í heiði og ég hafði rétt um sjö kílómetra til að hugsa málin. Ég þurfti líka að taka langan hring. Til að hreinsa hugann. Til að koma mér inn í æfingaprógramm upp á nýtt. Ég er svakalega hrifin af því að hafa eitthvað til að stefna að í líkamsrækt. Það er svo miklu skemmtilegra þegar maður er að vinna að ákveðnu verkefni. Það setur fútt í hlutina. Á meðan að stóra myndin er að vera almennt hraustur þá held ég að það sé bara til að halda áhuganum lifandi að hafa ákveðið verkefni með skýru tímamarki að vinna að. Svona eins og maður tekur próf, nær eða fellur og kemst áfram á næsta stig eða þarf að læra meira.

Ég sagði um daginn að ég sé ekki lengur í 10 km formi. Jæja, það er náttrúlega ekki að gera sig og ekkert annað í stöðunni en að komast aftur í það form. Ég er búin að skrá mig í 10 km hlaup í Bangor núna í lok maí. Passar ákkúrat, tveir mánuðir til að þruma sér í form og hlaupið sjálft er eitthvað til að hlakka til. Ég sé fyrir mér gullfallega leið meðfram Menai strait og skemmtilegan dag í Bangor með strákunum mínum. Og ég hef eitthvað að stefna að. Ég þarf að hafa eitthvað að stefna að.


1 ummæli:

Inga Lilý sagði...

Þetta er sko alveg rétt hjá þér, þú ert geðsjúklega sæt með svitabandið. Kannast vel við þessa eyrnabandagleði, hef ekki getað hlaupið með húfu vegna lubba en hreinlega elska eyrnabandið mitt. Var ekki alveg komin svo langt í að kaupa mér svitaband en kannski maður geri það fyrir sumarið. Og hlusti svo á kallinn hlæja endalaust mikið að mér.... :D