sunnudagur, 14. október 2012

Ég er búin að gera ýmiskonar uppgötvanir og taka allskonar ákvarðanir í vikunni. Í fyrsta lagi þá hef ég loksins fundið útskýringuna á því sem er "að" mér. Ég hef aldrei skilið afhverju ég get planað og skipulagt hvert einasta gramm sem ég borða, vigtað og mælt hitaeiningar og sett réttu næringarefnin á réttu tímasetninguna yfir daginn, æft með þungum lóðum, hlaupið langt og hlaupið spretti og samt hvorki grennst né lést né séð mun á fötum. Ekkert. Zilch. Nada. "Venjulegt" fólk myndi léttast um eitt til tvö kíló eða sjá mun á fötum eða líða betur eða eitthvað við svona vinnu. En ég get gert svona svo vikum skipti án þess að sjái högg á vatni. Og það er fátt erfiðara en að leggja hjarta, sál, blóð og svita í vinnuna sína án þess að fá borgað fyrir.

En, ég er núna loksins búin að fá útskýringuna á þessu. Ég er "insulin resistant". Þeas ég vinn ekki úr kolvetnum á réttan hátt. Þrátt fyrir að fara vel undir hitaeiningamörk þá gengur líkami minn ekki á fituforðann þannig að ég gæti fylgt hvaða lífstílsreglum sem virka fyrir annað fólk þar til kýrnar koma heim en ég myndi aldrei léttast. Eina leiðin fyrir mig er að halda kolvetnum undir 100 grömmum á dag. Sem þýðir grænmeti og ávextir í gnótt en kornmeti og sterkja og að hluta til mjólkurvörur bara verða að sigla sinn sjó. Ef ég vil missa fitu það er að segja. Ef ég ákveð að mig langi í franskbrauð nú, þá verð ég bara líka að gera mér grein fyrir því að þá grennist ég ekki. My choice.

Og mig langar meira að losa mig við fitu en mig langar í franskbrauð þannig að þetta ætti að vera einfalt. Ég er búin að vera að lesa mér til um vísindin að baki ástandsins á mér og skoða hvað ég þarf að gera og hverju ég þarf að breyta og þetta á eftir að vera smá tilraunir en ég er hress með það. Fátt finnst mér skemmtilegra en að taka Frankenstein í eldhúsinu.  Þetta er rosalega spennandi og ég er bara svo fegin að vera loksins búin að fá útskýringu.

Ég byrjaði á að búa til paleo brauð eftir uppskrift frá Hönnu. Bara hnetur, fræ, korn, egg, olía og salt. Rúmar 5000 hitaeiningar í hleifnum þannig að maður nagar sig ekki í gegnum hann allan í einu en það ætti líka bara að fullnægja manni að fá eina sneið.
Í öðru lagi er ég svo búin að sætta mig við að hlaup eru eiginlega úr sögunni hjá mér. Allavega í bili. Ég er ekki alveg með á hreinu hvort ég fari í 10 km hlaupið sem ég er búin að vera að æfa fyrir en eftir mikla sálarskoðun er ég búin að ákveða að þrátt fyrir allar tilfinningarnar sem ég hef lagt í að vera hlaupari  þá er betra fyrir mig að hætta að hlaupa, eða allavega að hlaupa minna, vegna þess að ef ég held áfram eins og ég er núna þá verð ég ógöngufær algerlega. Og það er betra að finna mér nýtt sport en að koma mér í þá stöðu að geta ekki gert neitt. Ég er enn að melta þetta, mig langaði svo rosalega til að vera hlaupari, ég hef áður skrifað um hversu mikilvægt það er fyrir mig, en ég verð bara að kyngja því að ég er með ónýt hné og að ég bara get ekki gert sjálfri mér þennan skaða. Allavega ekki á meðan ég er enn þetta þung.

Ofur Október er þessvegna búinn að vera grænn (lyftingar) frekar en bleikur (hlaup). Og það er fínt. En ekki nóg fyrir mig. Uppáhaldsstrákarnir mínir fóru þessvegna með mig í Halfords í dag til að skoða hjól. Og ég tók aftur gleði mína. Ég er búin að finna hjólið sem mig langar í en sölumaðurinn sagði okkur að það ætti að vera á tilboði bráðum þannig að ég ætla að bíða aðeins. Kannski að við getum kallað það jólagjöf?


Eru þeir ekki yndislegir, uppáhaldsstrákarnir mínir?

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Og hvernig fékkstu það út að þú værir "insulin resistant" ? Mikið hlýtur það að vera mikill léttir að fá "sjúkdómsgreiningu" til að díla við - ég ímynda mér það amk... geta sett label á vandamálið og gera viðeigandi ráðstafanir! Óska þér til hamingju með að vera búin að greina meinið og gangi þér vel í framhaldinu :)

Varðandi aðra hreyfingu en hlaup þá eru hjól rosa skemmtileg en ég mæli líka með sundi, sérstaklega skriðsundi þar sem þú ert með léleg hné. Frábær alhliða þjálfun :)

kv. Karitas

Nafnlaus sagði...

Finnst þetta frábært hjá þér! Nú er bara að lifa skv. þessu. Ég mæli með bók sem heitr Wheat belly. Hægt að kaupa hana á Amazon. Minnir að höf. heiti William Davies (læknir). Hann var sjálfur of þungur þrátt fyrir að fylgja almennnu ráðleggingunum um mataræði og breytti um lífsstil eftir að hafa kynnt sér málin vel og vandlega. Hann er að vinna á klínik sem tekur á móti sjúklingum í áhættuhópi fyrir hjartasjúkdóma og hefur séð mikinn árangur. Þessi bók er vel þess virði að kaupa hana og ég held að hún smellpassi fyrir þig.

Kveðja
Hólmfríður

ps þetta heitir víst insúlínviðnám á íslensku :)

murta sagði...

Ég "sjúkdómsgreindi" sjálfa mig eftir áralanga tilraunastarfsemi með hvað ég get og get ekki borðað. Ég sá svo grein um kolvetni, sykur og áhrif þess á mannslíkamann þá small saman vitneskjan sem ég hafði um sjálfa mig og það sem stóð í greininni. Svo einfalt! Ég tjékka á Wheat belly, takk fyrir :)

Inga Lilý sagði...

Vildi bara segja áfram þú. Þú ert svo ótrúlega dugleg og mikil fyrirmynd að ég er viss um að þú takir þessu verkefni eins og öðrum; af öllum krafti. Þetta er bara enn ein baráttan.

Bestu kveðjur úr blíðunni (og spikinu) í Tokyo :)