laugardagur, 8. desember 2012

"Endurance" á ís. 
"Hvað myndi Shackleton gera?" spyr maður sem ég þekki sjálfan sig þegar syrtir í álinn hjá honum. "Hvað myndi Shackleton gera?" Shackleton þessi var breskur landkönnuður sem fór í sína þriðju för á suðurpólinn 1914. Skipið hans, Endurance, festist í ís og var fast í 10 mánuði áður en það svo sökk 1915. Hann fór þá með menn sína í opnum bátum að Fílaeyju þar sem hann svo tók með sér fimm skipsverja í áframhaldandi leiðangur til að ná í hjálp. Þeir eyddu rúmum tveimur vikum í að fara yfir ís lagðan sjó og gengu svo 1300 km þar til þeir komu að hvalastöð.Þaðan var svo sendur hjálparleiðangur til að ná í afganginn af mannskapnum. Ekki einn maður í leiðangrinum dó. Þannig að það er nokkuð ljóst að svarið við spurningunni "hvað myndi Shackleton gera?" er að Shackleton myndi halda áfram og aldrei gefast upp.

Ég er búin að safna mér inn tuttuguogtveimur spikprikum það sem er af  þessari viku. Það er af hundraðsjötíuog fimm mögulegum. Algjört klúður semsagt. Og á meðan að spikprikasöfnunin á að sjálfsögðu að vera til gaman gerð þá er þetta engu að síður skýrt merki um hvar ég er stödd akkúrat núna. Ég sit pikkföst í is og er að horfa á mitt "Endurance" sökkva í sæ. Alla vikuna er ég búin að segja "æji fokk it, það eru að koma jól" og taka þátt í súkkulaðiáti í vinnunni ásamt því svo að fara út að borða á fimmtudagskvöldið og fá mér vel af rauðvíni. Sem náttúrulega þýddi súkkulaði í morgunmat á föstudaginn.

Að ná í hjálp.


Það er samt eitthvað inni í mér, bjartsýnisröndin mín sjálfsagt, sem segir mér að ég hafi ekki um neitt að velja en að halda áfram. Reyna bara mitt besta til að finna út úr þessu öllu saman, snúa trýni í suðurátt og leggja svo bara aftur í hann. Það má vera að ég þurfi smá hjálp núna. En aðallega ætla ég að gera það sem Shackleton myndi gera. Ég ætla að halda áfram.



Engin ummæli: