þriðjudagur, 23. júlí 2013

Það er sko meira en að segja það að vera ekki í megrun. Það er óneitanlega strembið verkefni á margan hátt. Frelsinu fylgir nefnilega ábyrgð sem ég á erfitt með að höndla. Grunnhugmyndin er að ég á að sannfæra sjálfa mig um að það komi enginn "fullorðinn" (sem er núna ekki mamma heldur rödd í hausnum á mér) og skammi mig fyrir að borða "bannaðan" mat og taki hann af mér. Þegar mig langar í eitthvað þá á ég að fá mér það. Og þannig á ég að gera mér grein fyrir því að ég hef vald og leyfi til að gefa sjálfri mér það sem mig langar í og þannig verður bannvara ekki lengur freistandi. Og lotuát þar með óþarfi. Án lotuáta þarf ég ekki að kljást við samviskubit og niðurrifstarfsemi ásamt því að borða það sem líkamann vantar í réttu magni. Það að ná kjörþyngd ætti að vera nánast óhjákvæmilegur fylgifiskur.

En eins og ég segi þá fylgir frelsinu ábyrgð sem ég get ekki ráðið við. Ef einhver hefði spurt mig fyrir ári síðan hvort ég myndi valda ábyrgðinni hefði ég sjálfsagt bara móðgast. "Hvurslags er þetta eiginlega? Er ég ekki dæmi um sökksess!? Það er ekkert sem ég veit ekki um holla lifnaðarhætti, ekkert sem ég get lært meira hefði ég sagt. Ég er orðin seif."

Þessvegna á ég ekki að sitja hérna og klóra mér í skallanum yfir því að ég sé aftur búin að þyngjast. Ég vildi óska að ég gæti borið við fáfræði, eða heimsku, gleymsku eða jafnvel geðveilu. Ég vildi óska að ég gæti æpt upp fyrir mig; "Já, en ég bara VISSI ekki að ef ég borða of mikið þá fitna ég!!" Ég vildi óska að ég væri að upplifa þetta í fyrsta skipti. En sannleikurinn er að þetta er ekki í fyrsta sinn. Þetta er ekki einu sinni i annað eða það þriðja. Ég ætti að vita betur.

En ég er líka að skilja að ég ber ábyrgðina og ég hef valdið, valið og frelsið. Það að ég er hvorki illa upplýst, heimsk né geðveik þýðir að ég verð bara að axla þessa ábyrgð og halda áfram að rembast.

Ég er eiginlega alveg viss um að síðast þegar ég léttist um töluvert magn kilóa þá tók ég ekki eftir því þegar ég glutraði því svo niður aftur. Ég var "allt í einu" orðin 150 kíló upp á nýtt. Eigum við ekki að kalla það gott að ég tók að minnsta kosti eftir þessu núna og að ég er að gera mitt besta til að snúa þróuninni við?

Frelsinu fylgir ábyrgð. En hugsið ykkur líka allt frelsið sem felst í því að vera laus við helvítis megrunina? Við sjálfshatrið og vanlíðanina sem því fylgir þegar manni mistekst? Frelsið sem felst í því að vita að ákvarðanirnar sem ég tek eru gerðar með mina vellíðan í huga?

Ég ætla þessvegna að halda áfram að vera ekki i megrun. Ég hef svo rosalega mikla trú á sjálfri mér. Ég er alveg viss um að ég eigi eftir að valda ábyrgðinni sem frelsinu fylgir fyrr en síðar.


Engin ummæli: