þriðjudagur, 10. mars 2015

Frá Chester til Wrexham

Ég get loksins sagt að langþráðu markmiði hefur verið náð. Ég hjólaði heim úr vinnunni. Venjulega þegar ég segi þetta nú þá á ég við að ég hafi farið með hjólið í lest á milli Chester, þar sem ég vinn, og til Wrexham og að þaðan hafi ég hjólað til Rhosllannerchrugog, þar sem ég bý. Það eru einhverjir 7 eða 8 kílómetrar. Nei, ég á við að ég hafi hreinlega sleppt lestinni og hjólað úr miðborg Chester og alla leið til Rhos. 
Ég er búin að plana þetta í 18 mánuði en hef alltaf haldið að þetta væri mér ofviða. Hjólatúrinn með hjólagrúppunni minni sannfærði mig svo að ég væri kannski naskari en ég hélt og þegar mér bauðst að fara snemma heim úr vinnu í dag ákvað ég bara að drífa mig. Sólin skein í heiði, 12 stiga hiti og vart að hár blakti á höfði. Ég var reyndar ekki með neinn útbúnað með mér, ekki með Garmin þannig að ég gat ekki mælt vegalengd og var í háum leðurstígvélum sem er kannski ekki alveg nógu sportí og var ekki með pumpu eða viðgerðarsett. Engu að síður sá ég í hendi mér þetta tækfæri og rauk hreinlega af stað áður en ég gat eitthvað hugsað þetta eitthvað frá mér. 
Mér reiknast til að þetta séu einhverjir 30 eða svo kílómetrar, allt í gegnum miðborg Chester, yfir þunga umferðargötu sem liggur til Manchester og svo í gegnum sveitavegi og sveitaþorp og yfir landamærin til Wales. Það er skemmtilegt að hjóla á milli landa. Ég var svo hamingjusöm alla leiðina, það pumpaði í mér hjartað, meira af ákefð og kátínu en af áreynslu, og ég gat ekki hætt að óska sjálfri mér til hamingju með sigurinn. Ég var meira að segja hálfsvekkt þegar ég kom inn í Wrexham vitandi að ég væri nánast búin. Leiðin frá Wrexham til Rhos eru svo 7 kílómetrar upp á við og ég verð að viðurkenna að ég fann að ég var búin að vera að hjóla í rúman klukkutíma þegar þar var komið að sögu. En um leið og ég kom heim var ég líka harðákveðin í að ég hefði glöð haldið áfram. Og þessvegna búin að ákveða að hafa samband við Wrexham hjólaklúbbinn sem er að fara 30-50 mílur í sínum túrum. Ég er nokkuð viss um að ég sé að verða tilbúin í það. 

Þetta er einn þáttur í velgengnisspíralnum. Þessi tilfinning, að gera eitthvað sem maður hefur einsett sér um langan tíma, er óviðjafnanleg. Og nú er ég tilbúin að setja hærri, lengri, stærri markmið. 

Kannski að ég jafni mig svona aðeins í "setbeininu" fyrst. 

Engin ummæli: