fimmtudagur, 31. desember 2015

Stop/Start/Continue

Í dag strengjum við heit; að verða betri manneskjur á einhvern hátt. Flest okkar vitum að það er að ýmsu að huga og margt sem má gera betur. Og ég held líka að það sé ríkt í íslensku þjóðarsálinni að ryðjast áfram með hamagangi, henda út öllu gömlu og setja allt upp nýtt. Við erum berserkir. Mörg okkar eru líka orðin smávegis júskuð á borðbrúnunum. Við munum einfaldlega of mörg brotin loforð, það eru allt of mörg áramót sem við lofum of miklu og erum svo uppistandandi í mars með ekkert nema samviskubitið.
Ég elska áramót. Fyrir mér er þetta afskaplega mikilvægur tími og ég legg mikla áherslu á að líta yfir farinn veg, þakka fyrir gefna reynslu og setja svo upp plan fyrir nýtt, ónotað ár. Ég elska möguleikana sem bjóða sig fram, allt það sem árið býður upp á. Allt sem maður þarf að gera er að grípa tækifærin.
Og ég settist því niður til að setja mér markmið.
Í vinnunni díla ég við vandamál og lausnir allan daginn. Og eitt verkfæranna sem ég nota þar er æfing sem heitir stop, start, continue. Og mér datt í hug að ég gæti nýtt mér þetta við áramótaheitin. Það er nefnilega heilmikið gott sem ég geri sem ég vil halda áfram að gera, og það er ekkert að því að fagna því sem gengur vel. Svo er ýmislegt sem ég vil byrja að gera og eitt og annap sem ég vil stoppa.
Ég ætla að halda áfram að telja og skrifa niður. Það svínvirkar og mér hefur ekki liðið svona vel í líkamanum í langan tíma. Ég ætla að halda áfram að skrifa hérna. Bloggið er ómetanlegur fjársjóður af reynslu sem ég er búin að gleyma og hef gott af að rifja upp öðru hvoru. Ég ætla að halda áfram að plana matseðla og skipuleggja vikuinnkaup. Ég ætla að halda áfram að hugsa vel um útlitið og ég ætla að halda áfram að rækta hjónabandið. Það felur líka í sér að halda áfram að fara í skipulagðar göngur saman.
Ég ætla að byrja að fara í ræktina. Ég er búin að fá þriggja daga passa í nýju ræktina í Wrexham og búin að bóka mig í þrjá mismunandi tíma. Eitthvað sem ég hef aldrei gert áður. Í ræktinni er ég alltaf ein, lyfti bara með sjálfri mér. Og ég hjóla ein. En mig langar til að vera meira aktív félagslega og það hljóma rosalega vel að æfa með hópi af fólki. Ég er ekki að setja nein markmið sem segja þrisvar í viku eða eitthvað þannig. Nei, markmiðið er að fara og skemmta mér. Og þetta á að vera nógu gaman til að ég setji engin lágmarksviðmið. Ég ætla að byrja að nota rauðan varalit og ég ætla að hlusta betur á alla. Lukas, Dave, vinnufélagana. Ég er alltaf að hugsa um svarið frekar en að hlusta í alvörunni á það sem er sagt. Ég ætla líka að vera meira "visjúal" Í efri hluta skálarinnar eru 30 marmarakúlur, ein fyrir hvert kíló sem ég vil léttast um. Í hvert sinn sem kíló fer ætla ég að færa það yfir í tóma hlutann. Eitthvað svona bara að gamni. Þetta eru líka furðulega fáar kúlur svona þegar maður spáir í því.


Ég ætla svo að hætta að kaupa föt. Þetta er í raun eina alvöru áramótaheitið í ár. Allt hitt er eitthvað sem er engin tími eða vigt eða hæð eða þyngd sett á og maður í raun á bara að gera. En þetta með fötin er annað. Síðan að ég grenntist hef ég keypt mér aragrúa af fötum. Það hefur verið svona eins og þerapía fyrir mig, gæðastimpillinn minn sem segir mér að ég sé "eðlileg". En ég á alveg aragrúa af fötum núna. Og stend sjálfa mig að því að nota oftast sömu flíkurnar. Og mér finnst eins og ég sé orðin allt of föst í svakalegri neyslu. Maður kaupir og kaupir endalaust af einhverju drasli og allar hirslur fyllast og maður finnur ekkert og fer svo og kaupir meira. Ég er búin að skoða það sem ég á núna og sé að það er bara óþarfi að kaupa meira. Þannig að 2016 verða engin föt keypt. Og ég vonandi læri að komast af með það sem ég á nú þegar. 
Fagna því sem maður gerir vel og breyta því sem þarf að breyta, þetta þarf ekki að vera sársaukafullt. Gleðilegt nýtt, hamingjuríkt ár og þakkir fyrir þau liðnu.

sunnudagur, 20. desember 2015

Af fitusöfnun á aðventu

Enn mjatlast þetta niður á við og ég heldur betur sátt að renna inn i aðventuna. Hún hefur verið ljúf og góð, og kom alveg þó ég hafi ekki borðað neinar smákökur, eða pissuköku eða makkintoss. Ég er hinsvegar búin að fá mér Nóakropp og panetone og allskonar annað fínt fínerí. Ég tel enn hitaeiningar og hef í hyggju að gera það fram á aðfangadag. En ég er nú líka alveg á því að jólin eru bara einu sinni á ári og að það er ekkert að því að njóta á meðan stendur. Það er bara óþarfi að draga veisluna út allan desember mánuð. Ég flissa þessvegna líka aðeins þegar ég fæ uppástungur á FB um greinar til að lesa sem gefa manni "10 ráð til að forðast fitusöfnun yfir hátíðarnar!!" Ég sé fyrir mér td gamalkunna ráðið að borða afganga standandi með ísskápinn opinn. Allir vita að standandi afgangar eru hitaeiningalausir. Nú eða matur sem er skorinn til að "snyrta". Þannig er ef maður er að borða köku og sker í hana til að hún sé symmetrísk. Snyrtu bitarnir eru að sjálfsögðu hitaeiningalausir. Sama gildir um mat sem er borðaður í boðum, og mat sem maður borðar uppi í sófa og konfekt sem hefur verið gefið í gjöf. Svo er líka mjög sniðugt að drekka eitt vatnsglas yfir daginn. Það hreinsar mann út, virkar með andoxunarefnunum í súkkulaðinu og veitir fullvissu um að maður sé enn á heilsubrautinni. Ég meina! Vatn!!
Ef maður vill hinsvegar vera drulluleiðinlegur þá er líka hægt að borða bara þær hitaeiningar sem viðhalda líkamsþyngd. Oftar en ekki eru það færri hitaeiningar en það sem flestir borða yfir hátíðarnar og nokkur fitusöfnun eiginlega þessvegna nokkuð gefin staðreynd. Þetta eru ekki nein geimvísindi. Þessvegna myndi ég halda að það væri bara best að slaka á hringvöðvanum, borða eins og maður vill, halda hreinskilninni við og ljúga engu að sjálfum manni og taka svo bara aftur upp góða siði annan í jólum. Einfalt.

Afmælispanetone

sunnudagur, 13. desember 2015

Vikan var ekki vel fallin til fitutaps, en mér tókst nú samt að hrista af mér 300 grömm og held mér þar með enn undir 100. Dave borgaði £100 verðlaunaféð glaður og ég var mikið snögg að kaupa mér skó og bóka mig í fína klippingu. 
Mér hafði gengið illa að plana vikuna, hún var aðeins úr skorðum vegna vinnunnar hans Dave í ofanálag við að ég þurfti að skila af mér stóru verkefni og mæta á fundi í Brighton á föstudaginn. Það gaf reyndar ástæðu til að stoppa við í London til að fara út að borða með Ástu sem er af hinu góða. Ég var því himinlifandi í gær þegar ég sá að ég gæti verið stressuð, ferðast og farið út að borða án þess að þyngjast. Plan for life kannski? 
Ég strögglaði reyndar aðeins í gærkveldi. Bakaði pizzu, eitthvað sem ég hef ekki gert í að verða tvö ár. Og það kemur í ljós að pizza er einhverskonar krakkkókaín fyrir mig, ég taldi út 750 hitaeiningar sem var alveg nóg til að verða vel södd. En það fullnægði á engan hátt bestíunni minni. Ég hreinlega tók andköf af innra óþoli eftir "einhverju djúsí". Skrýtið að pizza geri þetta. Ég reyndar er ekki nógu spennt fyrir þessari hugmynd að sé pizzan sjálf sem komi af stað einhverju svona brjálæði. Ég er búin að margsanna fyrir sjálfri mér siðustu mánuði að ég er fullfær um að fá mér smá og hætta svo. Og nú þegar ég er búin að uppgötva að ég er ekki svona spes að bara ég ein í heiminum er ekki fær um að borða mat í hóflegu magni hef ég engan áhuga á að hætta því. Nei, pizza er ekki eiturlyf. Ekkert svona fórnarlambs rugl. Pizza er einfaldlega matur sem hingað til ég tengi við ofát og djúsí stemningu og þessháttar. Tilfinningatenglsin eru enn ég sem fitubolla og pizza sem óvinur. Það þarf bara að laga það samband í heilanum á mér. Ekki setja pizzu í flokk með djöflinum.
Þegar ég var búin að upphugsa þetta slakaði ég á. Og ekkert binge. Það þarf bara að setja hlutina í samhengi.

laugardagur, 5. desember 2015

Af öðru hundraði

Ég fór til Birmingham um síðust helgi. Mamma og pabbi voru þar í helgarferð með vinum sínum og það þótti óhæfa að missa af þeim svona fyrst þau voru bara hérna í næsta landi. Við Lúkas fórum því með lest á föstdagskvöldið og gistum eina nótt. Birmingham, líkt og Liverpool, hefur gengið í gegnum gífurlega yfirhalningu á síðustu árum og er orðin heilmikið skemmtileg borg að heimsækja. Kannski ekki ef maður er að leita að listum og menningu, en high street verslun er frábær og í Birmingham fær maður besta madras utan Bangladesh. Ég notaði tækifærið til að knúsa mömmu og pabba vel og vandlega og borða með þeim góðan mat og drekka smá rauðvín og einn fínan kokteil. Ég sakna þeirra alltaf, mér finnst ofboðslega mikið til þeirra beggja koma, bæði sem manneskja og sem foreldra. Vona bara að mér takist að gera Lúkas jafn hrifinn af mér og ég er af þeim. Ég fékk líka að velja mér afmælis-og jólagjöf. Gat hreinlega labbað inn í Cos og keypt ofboðslega fallega kápu. Það var komið þannig að það var ekkert sjálfsagt mál að passa í hvað sem er og ég varð því nokkuð vongóð um að ég væri á réttu róli með að ná undir hundrað innan skamms.
Við mamma keyptum okkur eins kjól, og það ekki í fyrsta skipti.

Eftir yndislegan laugardag þurftum við Lúkas að fara heim. Ég gleymdi því miður ipaddnum mínum á hótelinu og það tók staffið þar viku að senda mér hann tilbaka. Ég gat því ekki skrifað neitt síðasta sunnudag um að ég haldi mig enn innan 1800 hitaeininga yfir daginn og það líka þegar ég er að njóta þess að borða úti með mömmu og pabba. Ekkert mál. Ég skrifaði ekkert um að ég hafi verið komin niður í 101 kíló og að ég væri farin að eygja heldur betur £100 sem við Dave höfðum lagt í púkkið fyrir það okkar sem fyrst kæmist undir hundraðið. Ég hef heldur ekkert skrifað um hversu náttúrulegt þetta er fyrir mér, að hver dagur er auðveldari en sá á undan og að þetta er eiginlega orðið náttúrulegt fyrir mér. Kannski afsökun að skrifa ekki af því að ég hafði ekki ritvélina mína en sannleikurinn er að ég hef ekkert um þetta að segja. Ég er algerlega laus við "binge", hef ekki einu sinni hugsað um mat í einhverju magni síðan í september. Engin löngun. Ég fæ mér bara nammi ef mig langar og hætti þegar ég þarf. Ég get ekki kallað þetta algert frelsi af því að eg skrifa allt niður en þetta er samt það frjálsast sem ég hef verið lengi. En ég get ekki útskýrt þetta. Afhverju núna? 
Og svo gerðist þetta í gærmorgun.
Ég stóð grenjandi inni á baði þegar ég sá töluna. Undir hundrað aftur. Og algerlega sársaukalaust og á innan við þremur mánuðum. Ég hafði ekki gert mér almennilega grein fyrir því hversu mikilvægt þetta var fyrir mig. Og mér datt í hug að þetta skiptið var eiginlega betra en fyrst því ég hef ekki gefist upp allan þennan tíma. Ég get ekki sagt að ég hafi hætt að vinna að þessu, bæði með sál og líkama, síðan 2009 þegar ég fyrst sá rúm 130 kíló á þessari vigt. Ég er, og verð alltaf, live document.

Dagurinn var svo algerlega toppaður með að lokaverkið í umbótum hér heima var unnið og ég komin með almennilega fataskápa. Allt hreint og klárt og fínt og skipulegt og á sínum stað eins og það á að vera. Og lygna vatnið sem hugur minn er enn slétt og ógárað.