Ég elska áramót. Fyrir mér er þetta afskaplega mikilvægur tími og ég legg mikla áherslu á að líta yfir farinn veg, þakka fyrir gefna reynslu og setja svo upp plan fyrir nýtt, ónotað ár. Ég elska möguleikana sem bjóða sig fram, allt það sem árið býður upp á. Allt sem maður þarf að gera er að grípa tækifærin.
Og ég settist því niður til að setja mér markmið.
Í vinnunni díla ég við vandamál og lausnir allan daginn. Og eitt verkfæranna sem ég nota þar er æfing sem heitir stop, start, continue. Og mér datt í hug að ég gæti nýtt mér þetta við áramótaheitin. Það er nefnilega heilmikið gott sem ég geri sem ég vil halda áfram að gera, og það er ekkert að því að fagna því sem gengur vel. Svo er ýmislegt sem ég vil byrja að gera og eitt og annap sem ég vil stoppa.
Ég ætla að halda áfram að telja og skrifa niður. Það svínvirkar og mér hefur ekki liðið svona vel í líkamanum í langan tíma. Ég ætla að halda áfram að skrifa hérna. Bloggið er ómetanlegur fjársjóður af reynslu sem ég er búin að gleyma og hef gott af að rifja upp öðru hvoru. Ég ætla að halda áfram að plana matseðla og skipuleggja vikuinnkaup. Ég ætla að halda áfram að hugsa vel um útlitið og ég ætla að halda áfram að rækta hjónabandið. Það felur líka í sér að halda áfram að fara í skipulagðar göngur saman.
Ég ætla að byrja að fara í ræktina. Ég er búin að fá þriggja daga passa í nýju ræktina í Wrexham og búin að bóka mig í þrjá mismunandi tíma. Eitthvað sem ég hef aldrei gert áður. Í ræktinni er ég alltaf ein, lyfti bara með sjálfri mér. Og ég hjóla ein. En mig langar til að vera meira aktív félagslega og það hljóma rosalega vel að æfa með hópi af fólki. Ég er ekki að setja nein markmið sem segja þrisvar í viku eða eitthvað þannig. Nei, markmiðið er að fara og skemmta mér. Og þetta á að vera nógu gaman til að ég setji engin lágmarksviðmið. Ég ætla að byrja að nota rauðan varalit og ég ætla að hlusta betur á alla. Lukas, Dave, vinnufélagana. Ég er alltaf að hugsa um svarið frekar en að hlusta í alvörunni á það sem er sagt. Ég ætla líka að vera meira "visjúal" Í efri hluta skálarinnar eru 30 marmarakúlur, ein fyrir hvert kíló sem ég vil léttast um. Í hvert sinn sem kíló fer ætla ég að færa það yfir í tóma hlutann. Eitthvað svona bara að gamni. Þetta eru líka furðulega fáar kúlur svona þegar maður spáir í því.
Ég ætla svo að hætta að kaupa föt. Þetta er í raun eina alvöru áramótaheitið í ár. Allt hitt er eitthvað sem er engin tími eða vigt eða hæð eða þyngd sett á og maður í raun á bara að gera. En þetta með fötin er annað. Síðan að ég grenntist hef ég keypt mér aragrúa af fötum. Það hefur verið svona eins og þerapía fyrir mig, gæðastimpillinn minn sem segir mér að ég sé "eðlileg". En ég á alveg aragrúa af fötum núna. Og stend sjálfa mig að því að nota oftast sömu flíkurnar. Og mér finnst eins og ég sé orðin allt of föst í svakalegri neyslu. Maður kaupir og kaupir endalaust af einhverju drasli og allar hirslur fyllast og maður finnur ekkert og fer svo og kaupir meira. Ég er búin að skoða það sem ég á núna og sé að það er bara óþarfi að kaupa meira. Þannig að 2016 verða engin föt keypt. Og ég vonandi læri að komast af með það sem ég á nú þegar.
Fagna því sem maður gerir vel og breyta því sem þarf að breyta, þetta þarf ekki að vera sársaukafullt. Gleðilegt nýtt, hamingjuríkt ár og þakkir fyrir þau liðnu.