Eftir yndislegan laugardag þurftum við Lúkas að fara heim. Ég gleymdi því miður ipaddnum mínum á hótelinu og það tók staffið þar viku að senda mér hann tilbaka. Ég gat því ekki skrifað neitt síðasta sunnudag um að ég haldi mig enn innan 1800 hitaeininga yfir daginn og það líka þegar ég er að njóta þess að borða úti með mömmu og pabba. Ekkert mál. Ég skrifaði ekkert um að ég hafi verið komin niður í 101 kíló og að ég væri farin að eygja heldur betur £100 sem við Dave höfðum lagt í púkkið fyrir það okkar sem fyrst kæmist undir hundraðið. Ég hef heldur ekkert skrifað um hversu náttúrulegt þetta er fyrir mér, að hver dagur er auðveldari en sá á undan og að þetta er eiginlega orðið náttúrulegt fyrir mér. Kannski afsökun að skrifa ekki af því að ég hafði ekki ritvélina mína en sannleikurinn er að ég hef ekkert um þetta að segja. Ég er algerlega laus við "binge", hef ekki einu sinni hugsað um mat í einhverju magni síðan í september. Engin löngun. Ég fæ mér bara nammi ef mig langar og hætti þegar ég þarf. Ég get ekki kallað þetta algert frelsi af því að eg skrifa allt niður en þetta er samt það frjálsast sem ég hef verið lengi. En ég get ekki útskýrt þetta. Afhverju núna?
Og svo gerðist þetta í gærmorgun.
Ég stóð grenjandi inni á baði þegar ég sá töluna. Undir hundrað aftur. Og algerlega sársaukalaust og á innan við þremur mánuðum. Ég hafði ekki gert mér almennilega grein fyrir því hversu mikilvægt þetta var fyrir mig. Og mér datt í hug að þetta skiptið var eiginlega betra en fyrst því ég hef ekki gefist upp allan þennan tíma. Ég get ekki sagt að ég hafi hætt að vinna að þessu, bæði með sál og líkama, síðan 2009 þegar ég fyrst sá rúm 130 kíló á þessari vigt. Ég er, og verð alltaf, live document.
Dagurinn var svo algerlega toppaður með að lokaverkið í umbótum hér heima var unnið og ég komin með almennilega fataskápa. Allt hreint og klárt og fínt og skipulegt og á sínum stað eins og það á að vera. Og lygna vatnið sem hugur minn er enn slétt og ógárað.
2 ummæli:
æðislegt! til hamingju með kílóin og nýju skápana :)
Takk fyrir :)
Skrifa ummæli