sunnudagur, 22. nóvember 2015

Af sléttu vatni

Fyrir nokkru gerðum við Dave samkomulag sem kvað á um að það okkar sem fyrst urði undir hundrað kílóum fengi í verðlaun hundrað pund frá hinu. Ég var 101.5 í gærmorgun, eitt kíló í viðbót farið þessa vikuna. Enn var það með afskaplega litlu erfiði. Ég borðaði spaghetti squash lasagna, túnfisksalat á hvítu brauði, gríska kjúklingasúpu, Daim, linsubaunakássu,M&M, haframúffur, skyr með rjóma, harðfisk og bökuð epli með vanilluís. Nei, þetta er ekki erfitt. Og enn engin þrá eftir "binge". Málið er að þegar ég gerði veðmálið við Dave fannst mér þetta svo fjarlægur möguleiki að ég þóttist bara taka þátt. En núna? Eitt og hálft kíló? Tvær eða þrjár vikur í að halda mínu striki áfram, ekkert mál. Ég var líka búin að setja niður markmið um að ná undir hundrað 19. desember, aftur eitthvað sem eg hélt að væri útilokað. En það markmið sé ég ekki betur en að mér takist að ná. Það er alveg hrikalega skemmtilegt að ná markmiðum. 

Svona eins og nú um helgina þegar nokkrir langþráðir draumar rættust. Við rifum niður fataskápana í svefnherberginu og hentum allskonar drasli sem er búið að safnast upp í áraraðir. Fylltum heilan ruslagám. Svo fengum við nýja skápa sem verða settir upp eftir tvær vikur. Ég notaði svo tækifærið og hreinsaði út úr öllum skápum og hirslum þannig að húsið er laust við allt óþarfa drasl. Að lokum bókaði ég svo hreingerningarfyrirtæki til að koma eftir að skáparnir eru komnir upp til að djúphreinsa húsið. Taka bara allt í gegn, allt þetta sem ég hef bara ekki tíma til að gera til að viðhalda hreingerningarstandardinum mínum. Þeir koma svo einu sinni í viku og viðhalda. Ég hef aldrei tíma til að taka til, ekki almennilega, þar sem maður ryksugar gólflista og strýkur af eldhússkápum og skrúbbar glerið í sturtunni og allt þetta. Fyrir utan að ég er bara léleg húsmóðir. Léleg og löðurmannleg. En með þessu hef ég tíma til að elda og spila á gítarinn og vera með fjölskyldunni og legg mitt fram til að halda hjólum atvinnulífsins gangandi. 

Þegar allt draslið var komið út í gám og allt hitt arranserað og tilbúið leið mér eins og allt í heiminum væri á sínum stað. Hugurinn fullkomlega sléttur og jafn, eins og lyngt vatn á sumarmorgni. Ótrúleg tilfinning sem ég stoppaði við hjá til að muna og setja í tilfinningabankann minn. Þannig get ég dregið á þessa tilfinningu þegar öldur gárast eða þegar pusar á mann. 


Engin ummæli: