miðvikudagur, 18. nóvember 2015

Af neyslubrjálæði

Ég rakst um daginn á hugtakið orthorexia nervosa. Þrátt fyrir að vera ekki enn viðurkennd greining í  sálfræðinni þá er þetta sífellt að verða algengara hugtak. Orthorexia er þegar maður er haldin ofsahræðslu við að borða óhollan mat. Og með þessa ofgnótt af upplýsingum sem eru svo líka ruglandi og þverstæðar er kannski ekki skrýtið að fólk þjáist af þessu. Bætið svo ofan á að það verður að skeina sig reglulega á chiafrælegnum grænkálsblöðum til að haldast í heilsutískunni og þetta er bara búið spil. Þetta er að sjálfsögðu á engan hátt jafn hættulegt og að vera með anorexiu eða bulimiu, enda getur líkamlega lítið verið að því að borða bara hollan mat. En það hlýtur að vera afskaplega erfitt fyrir sálina að vera stanslaust með hland fyrir hjartanu ef einhver minnist á Macdónalds, fyrir utan að ég ímynda mér að svoleiðis fólk sé voðalega leiðinlegt að spjalla við. 
Það er ekkert að því að borða hollan mat, ég myndi heilshugar mæla með því. En það er hinsvegar voðalega furðulegt að fylgja tískusveiflum þegar kemur að hollustu. Þannig finnst mér alltaf furðulegt þegar eitthvað er flokkað sem súperfæða. Það hlýtur að vera súper að borða hvaða grænmeti sem er? Þannig er grænkál komið í guðatölu að undanförnu. Jú, það er rosalega hollt og sneisafulllt af trefjum og A vítamíni. En broccolí er sneisafullt af trefjum og hefur meira c vítamín en appelsínur og enginn röflar um nýjustu broccólí uppskriftina. 
Svo er líka annað sem sjaldan er minnst á þegar kemur að hollustu og það er umhverfis-og efnahagsáhrifin sem fylgja. Möndlumjólk er orðin eðlileg skipti fyrir kúamjólk, sem eins og allir vita kemur frá djöflinum sjálfum. Möndlur er nánast einungis ræktaðar í Kaliforníu. Þar er lítið vatn, en möndlur þurfa einmitt gífurlegt vatnsmagn til að þrífast. Umhverfisáhrifin sem nú eru að sjást vegna ofnýtngu á vatnsveitu í Kaliforniu ættu að láta mann hugsa sig um tvisvar áður en maður skiptir út kúnni. Þannig er líka orðið að engin heilsusamleg manneskja myndi láta grípa sig án þess að geta stunið upp að minnsta kost fimm mismunandi leiðum til að nota súperkornið kínóa. Sala á því hefur nífaldast á síðustu fimm árum og verðið á tonninu hefur margfaldast. Svo mikið reyndar að innfæddir í Bólivíu og Perú sem hafa notað kínóa sem undirstöðu í sinni fæðu í árþúsundir hafa núna ekki efni á að kaupa kornið. Það er miklu betra fyrir bændur að selja það allt til feitra í vestrinu og flytja svo inn ómeti frá ammríku til eigin neyslu. Og allir tapa. Sama staðan hlýtur að bíða súperkornsins teff. Það má vera að það sé ókunnugt núna en bíðið í smástund og það á eftir að taka yfir kínóað. Teff er fullkomið korn, inniheldur fullkomið prótein, er náttúrulega glútenlaust og sneisafullt af góðum fitusýrum og andoxunarefnum. Það er líka varan sem myndar 90% af hitaeiningainntöku Eþíópíubúa, þar sem það er ræktað. Eþíópía hefur sett útflutningsbann á það sem stendur en það er sjálfsagt bara tímaspursmál hvenær banninu verður lyft til að fullnægja heilsuþrá okkar vestræna fólksins. Teff hlýtur jú að vera ekki bara súper, heldur megafæði; ekki sér maður feita Eþíópíubúa?!
Teff er glúteinlaust sem gerir það enn eftirsóknarverðara nú orðið. Sem er líka skrýtið því einungis 1% af heiminum er með glútenóþol. Það stöðvar engu að síður ekki 60% neytenda hér í Bretlandi að kaupa matvöru sem er sérmerkt sem glútenlaus. Meira að segja matur sem aldrei hafði glúten, eins og til dæmis súkkulaði er núna markaðsett sem glútenlaust. Fólk sem er ekki með glútenóþol en neytir engu að síður bara glútenlausrar fæðu þyngist að jafnaði um þrjú kíló yfir þá sem fylgja venjulegu fæði. Þetta skapast bæði af sálrænum áhrifum sem segir manni að maður sé "deprived" og eigi þá meira magn af öðru "skilið" og svo þeim óhjákvæmilega fylgifiski að glúteinlaust þýðir alls ekki hitaeininga, sykur og fitulaust og fólk gleymir að fylgjast með magninu. Glútenlaust? Glórulaust segi ég. Ef þú er með útþaninn maga eftir að borða pizzu er mun líklegra að það sé einfaldlega of mikið að sporðrenna öllum 12 tommunum fremur en að um glútenóþol sé að ræða. 
Hvernig væri nú að við hættum að láta markaðsetningar og blint neysluæði ráða för þegar kemur að ákvörðunum hvað matvöru varðar en fylgdum frekar því sem er í alvörunni gott fyrir okkur og umhverfið; meðalhóf.

Engin ummæli: