sunnudagur, 7. febrúar 2016

Af ástríðufullu fólki

Ég byrjaði í gær á fjögurra vikna lyftinganámskeiði. Næstu fjóra laugardaga hitti ég sérfræðing í lyftingum sem ætlar að fara yfir allt sem þungum lyftingum kemur, upphitun, næringu, formi og uppbyggingu sett, líffræði og hvað annað sem þarf að vita til að geta lyft þungu svo rétt sé og þannig að gagn sé að. Ég hef náttúrulega verið að lyfta í nokkurn tíma og veit eitt og annað en ég hef aldrei haft neinn sem getur sýnt mér nákvæmlega hvernig á að gera þetta og getur leiðrétt og kommentað á formið mitt. Mig vantar líka að fá smá sjálfstraust. Ef það er eitthvað sem er ógnvekjandi þá er það að labba inn í nýja rækt og að lóðasvæðinu og byrja að lyfta. Það er eitthvað sem ég get ekki gert án þess að vera búin að skoða svæðið vel og vandlega, finna út hvar allt er og hvernig allt virkar, finna út hvenær er minnst af öðru fólki og hver etikettan er hvað notkun lóða varðar. Um leið og allt þetta er komið er ég fljót að byrja að haga mér eins og ég sé heima hjá mér og get byrjað að rymja í testesterónfylltu gleðikasti.
Ég hafði séð fyrir mér að klára námskeiðið og byrja svo að lyfta af alvöru en ég fylltist svo miklum eldmóð við að fara á námskeiðið að ég er búin að ná í lyftingabiflíuna mína og er að skrifa niður prógrammið fír og flamme fyrir mánudagsmorgun. Það skiptir öllu að umkringja sjálfan sig með fólki sem er jákvætt og ástríðufullt um það sem það er að gera. Strákarnir tveir sem sjá um námskeiðið eru báðir þannig, uppfullir af ást á því sem þeir eru að gera og þrá ekkert heitar en að dreifa sem víðast ástinni á járninu. Þegar maður hefur svoleiðis fólk með sér er þetta allt saman auðveldara. Maður smitast af ákefðinni og jákvæðninni og getur ekki annað gert en að hrífast með og það er um að gera að nota það til að koma sér af stað. 
Bolludagur á morgun sem þýðir að langa fasta hefst svo þar á eftir. Er ekki alveg borðleggjandi að taka löngu föstu í þétt lyftingaprógramm fram að Páskadag?


Engin ummæli: