sunnudagur, 14. febrúar 2016

Af forgangsröð


Ég stóð í stað í þessari viku. Ekkert sem kom mér á óvart, ég borðaði pönnukökur, bollur og pizzu síðasta sunnudag og lyfti síðan þungt fjórum sinnum í vikunni. Ekki það að ég haldi að ég sé svo mikið tröll að ein vika með lóðunum þýði svo svaðalegan áunninn vöðvamassa að ég sýni engan árangur á vigtinni. Mér þykir mun líklegra að bollurnar allar hafi einfaldlega þurrkað út alla hitaeiningaþurrð sem á eftir kom. Fitutap er leikur að tölum eins og allir ættu að vita. 
Lóðin hafa svo aldeilis kveikt í mér. Alla vikuna hoppa ég á fætur og rýk á hjólinu niður til Wrexham til að komast í ræktina. Það er bara ekkert betra en að líða eins og maður sé sterkur. Ég er líka aftur komin með þessa tilfinningu sem segir að mig langi svo til að vera hraust. Og með því kemur aftur upphífingadraumurinn. Það er þessvegna ekkert sem heitir, nú er markmiðið að geta gert upphífingu. Eins og ég sagði við Sam, þjálfarann á lyftinga námskeiðinu, lose 30 kilos of fat, gain 10 kilos of muscle and do some fucking pull ups!
Og það er ekki hægt að gera það án þess að vera með plan. Ég er með þetta allt á hreinu. 
Númer eitt eru hitaeiningarnar. Ef maður ætlar að brenna fitu þá er það er algerlega númer eitt að borða færri hitaeiningar en maður brennir. Mér er alveg sama hvað fólk kallar það og hvort það heldur því fram að það sé óþarfi að telja hitaeiningar, ef það er að léttast þá er það að borða færri hiteiningar en það brennir. Það er bara þannig. Ef maður er komin með hitaeiningarnar á hreint þá og fyrst þá er hægt að fara að hugsa um næsta atriði. Og fyrir mig er það prótein. Ég á að borða um 160 grömm af próteini á dag. TIl að gera það og halda mig við 17-1800 hitaeiningar fer nokkuð af skammtinum í próteinið. Um það bil 640 hitaeiningar í prótein. Afgangurinn skiptist svo í fitu og kolvetni. Þetta er ekki hægt að gera eða einu sinni hugsa um fyrr en maður er búinn að ná að skilja hitaeiningar. Og ég held að það sé svona lagað sem ruglar fólk svo í ríminu. Það heyrir um allskonar svona eitthvað og fríkar út af því að það skilur ekki hvað á að gera. Slaka á, skilja undirstöðuna (hitaeiningar) og byggja svo þar ofan á. Hvað erum við komin með? Hitaeiningar, prótein og svo má hugsa um kolvetni og fitu. Ekkert mál. Ef þú veist hvaða hitaeiningar þú átt að fá og svo hversu mikið prótein þá er restin kolvetni og fita. Eftir það myndi ég svo kannski fara að spá í smáatriðum eins og gæði hitaeininganna. En að mestu leyti myndi ég bara segja að reyna að borða óunninn mat 95% tímans og rúlla svo bara með stuðinu þegar það hentar. Allra síðast myndi ég svo reyna að pæla í tímasetningu. Hvenær ég borða hvað, fyrir og eftir æfingu, tíma dagsins fyrir hvað og svo framvegis. 
Eins og ég segi það er ekki hægt að vakna einn daginn með þetta allt saman á hreinu. Það sem skiptir máli er að ná fyrsta þrepinu í forgangsröðinni og byggja svo þar ofan á þegar maður er tilbúinn. 

2 ummæli:

Ella sagði...

Þessi póstur er búinn að fá mig til að hugsa töluvert, ég ætla alltaf svo mikið að gera allt í einu. Fækka hitaeiningum, sleppa hveiti, sykri, mjólk og öllum andskotanum. Byrja voða vel en svo fer allt í vaskinn.
Þannig að núna ætla ég að prófa að skrá bara hitaeiningarnar sem ég borða og reyna að verða fær í þeim, fyrsti dagurinn í dag og ég verð að viðurkenna að ég varð pínu sjokkeruð þegar ég fattaði að litli pokinn með hlaup/lakkrísblandinu sem ég borðaði í eftirrétt í hádeginu telur heilar 700 hitaeiningar!!! Er strax búin að fræðast aðeins :)

murta sagði...

Mikið fannst mér þetta gott komment, og frábært að sjá að röflið í mér skipti smávegis máli :) Og já, hugsaðu þér; lófafylli af smá nammi og þú ert búin að bæta við heilli máltíð án þess að taka eftir því! 700 hitaeiningar eru auðveldlega einn þriðji af öllum dagskammtinum!