Ég er búin að léttsat um þrjú kíló á tveimur vikum. Ekkert rosalegt en betra en að þyngjast um þrjú kiló á tveimur vikum sem undanfarna mánuði hefur sannarlega verið málið. Jebb, ég var orðin 111 kíló. Það eru 15 kíló í plús á tæpu ári. Rosalega dugleg!
Á þessum tveimur vikum hef ég hripað hjá mér nokkrar hugleiðingar:
1.Þegar maður gúgglar Intermittent fasting kemur í ljós að fólk sem stundar þetta er næstum jafn "evangelical" og fólk sem aðhyllist svona kennisetningar. Eins og paleo og LCHF og þar fram eftir götunum. Fólk er sanntrúað. Mér finnst það alltaf merkilegt og ég verð smávegis öfundjúk af því að ég er alveg sannfærð um að af því meiri trúarofsa og sannfæringarkrafti maður getur gert eitthvað getur maður gert það betur. Þannig td þarf maður ekkert að skilja vísindin að baki einhvers af því að maður hefur blinda trú.
2. Ég fíla það í botn þennan klukkutíma eða svo á milli 10 og 11 þegar ég verð í alvörunni svöng. Ég nýt þess að finna loksins alvöru hungur. Og að finna að líkaminn er ekki svona endalaust mettaður af mat.
3. Ég hef ægilegar áhyggjur af því hversu lengi þessi tilfinning að líða vel með hungur eigi eftir að endast. Í stað þess að njóta bara núna er ég komin fram úr sjálfri mér og strax með áhyggjur af þvi hvað gerist þegar ég klúðra þessu. Það þarf að laga strax.
4. Ég er geðsjúklega hress. Hef fullt af orku og er í stuði allan morguninn. Búin að prófa að fara í langa hjólatúra og góða göngu fastandi og það var bara gott.
5. Ég sef eins og rotuð í átta tíma. Kannski vegna þess að eftir að eiga sömu dýnuna í 20 ár fékk ég mér loksins nýja dýnu. Það er annað hvort nýja dýnan eða það að ég fer að sofa án þess að vera stútfull af mat.
6. Húðin í andlitinu er rosa fín núna. Kannski út af sólinni. Kannski út af aukinni vatnsdrykkju.
7. Ég hélt að ég myndi ekki geta hugsað um neitt nema mat ef ég sleppti honum í 16 tíma. En það hefur komið í ljós að ég er ekkert meira heltekin af hugsunum um mat en alla aðra tíma. Ég er alltaf að hugsa um mat. Það skiptir engu máli hvort ég er í megrun eða ekki, hvort ég á fullan skáp af nammi eða ekki, ég er alltaf heltekin. Þannig að það skiptir litlu máli.
8. Ég ströggla samt aðeins að stýra magninu. Ég sleppi morgunmat og fyrstu vikuna borðaði ég það sem ég hefði borðað í morgunmat og hádegismat þegar ég byrjaði að borða. Svo náði ég að minnka það niður og borða núna bara hádegismat. Svo byrjaði ég líka að sleppa klukkan þrjú snarlinu. Núna borða ég hádegismat og kvöldmat. En umþb 900 hitaeiningar í hvora máltíð. 1800 hitaeiningar eru viðhalds hitaeiningar fyrir mig. Ástæðan fyrir því að ég léttist er að ég var komin í 3-4000 yfir daginn. Nú sleppi ég líka öllu gúmmeliði á kvöldin, eða vinn það inn í kvöldmatinn. Ég hugsa því að það líði ekki á löngu áður en ég hætti að léttast og þurfi þá líka að pæla aðeins meira í þvi sem ég er að borða. Sem stendur er það hvað sem er, svo lengi sem það er milli 12 og 8 fæ ég hvað sem mig langar í.
9. Mér er drullukalt á morgnana.
Þetta er svona fyrstu hugrenningar, ég á eftir að spökulera mun meira í þessu eftir því sem tíminn líður og ég fæ meiri reynsu. En sem stendur er ég kampakát.