föstudagur, 9. janúar 2004

Jæja, allt annað líf í dag, þegar Láki sofnaði loksins svaf hann bara sína venjulegu 8 tíma og var svo alveg eðlilegur þegar hann vaknaði í morgun. Ég var nú svona hálf móðursjúk (!) yfir því hvernig hann var í gær en Dave minnti mig á að það væri nú óþarfi, við vissum svo sem hvað væri að, það væri ekki eins og við stæðum ráðalaus og vissum ekkert hvað hrjáði hann. Sem minnti mig að ég á það allt saman eftir! Ég er varla bógur í þetta foreldrahlutverk ef ég get ekki plumað mig í gegnum eins og eina flensu. Þetta minnir mig aftur og aftur á það hvað maður tekur foreldra sína sem gefnum hlut. Hann hefur ekki hugmynd um hvað ég hugsa mikið um hann og hvað ég myndi gera hvað sem er fyrir hann. Mamma og pabbi hljóta að hugsa það sama um mig. Mér dettur núna til dæmis í hug hvernig mömmu hlýtur að hafa liðið þegar ég var lítil og var skorin upp við botnlangabólgu. Mér fannst þetta ægilegt ævintýri og ástæða til að fá nýjar dúkkur. Hún hlýtur aftur á móti að hafa verið að farast úr áhyggjum. Svona breytist allt við það að eiga barn. Maður fær meira að segja nýja sýn á minningar.

Engin ummæli: