föstudagur, 6. febrúar 2004
Lúkas fékk aftur sprautur í gær og var svona frekar niðurdreginn í gærkveldi. Ekki eins slæmt og síðast en samt mjög átakanlegt. Og svo er hann bara í fýlu í dag. Sjálf var ég í ljómandi skapi þangað til að ég fór út í búð núna áðan. Ég þurfti bara að kaupa salathaus og bleyjupakka og þegar það var komið í korfuna stefndi ég að kassanum. Á leiðinni þangað hafði nokkrum kexpökkum verið haganlega komið fyrir þannig að þeir gripu augað og skilaboðin TVEIR FYRIR EINN voru vel sýnileg. Ég, gegn betri vitund, greip tvo pakka og fór að borga. En fannst upphæðin vera hærri en ég bjóst við þannig að þegar ég var komin út skoðaði ég kassakvittunina. Og viti menn, ég borgaði fullt verð fyrir báða kexpakkana. ég ætlaði að fara heim en hugsaði svo með mér "nei ég læt ekki svindla svona á mér. Þetta eru kannski bara 3 pund en andskotakornið, fair is fair!" Ég sneri því við full réttlátri reiði og sagðist vilja skila kexinu þar eð mér hafi verið talin trú um að þeir væru á tilboði en svo væri það ekki svo og ég væri bara fúl yfir því. Það var vesen að fá að skila pökkunum en loksins tókst það því í ljós kom að einhver hafði sett vitlausa pakka á tilboðsstandinn og þetta voru því þeirra mistök ekki mín. Ég sigraði því að lokum. En þegar heim var komið leið mér bara illa. Ég er nefnilega ekki svona gerð. Ég kvarta ekki og skila vörum, ég sný einfaldlega viðskiptum mínum annað. Núna líður mér eins og ég sé nískunös og nöldrari og það er ekki ég.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli