Ég er búin að vera að tína saman í huganum hluti sem mig langar til að biðja stelpurnar um að koma með frá Íslandi þegar þær koma í heimsókn. Mér gengur satt að segja ekki vel, það er ekki margt matarkyns sem ég sakna að heiman. Mér finnst eiginlega bara voða gaman að kanna matinn sem er til hérna. Eithhvað er það þó sem er komið á listann.
1. Súpujurtir. Kjötsúpan sló alveg í gegn á heimilinu.
2. Saltfiskur. Hér er til íslenskur fiskur en eg hef ekki enn fundið hann saltaðann.
3. Rauðkál. velska lambakjötið er aæveg svaðalega gott, en mig vantar rauðkálið með.
4. Eiturbrjóstsykur og lakkrís. Hér eru sætindi sæt, ekki sölt.
5. Nóa-kropp. Það er bara alveg ógeðslega gott.
6. Rabbabarasulta. "Jam" og marlemaði en ekkert syltetoj. Það væri sjálfsagt best að fá uppskriftina.
7. Piparostur. Besti osturinn til að búa til skemmtilegar sósur og ég finn ekkert sem kemur í hans stað hér.
Það sem ég sakna mest er erfitt að flytja með sér. Ég hef ekki fengið Egils appelsín núna síðan í byrjun júní og er farið að finna vel fyrir fráhvarfseinkennunum. En ég sé það ekki fyrir mér að hægt sé að bija um tvo lítra af Agli.
Og að lokum það sem ég sakna allra mest og hef leitað sem mest að. Rjómi. Já venjulegur rjómi til að þeyta og bera fram með hinu og þessu sætabrauðinu. Þið hváið eflaust núna:" hva, eins og stelpan finni ekki rjóma í Bretlandinu" en ég sver það hér er enginn rjómi. ég er búin að kanna allar tegundir og þetta er allt gervirjómi. A delicate blend of buttermilk and vegetable oil og bölvuð sé ég ef það er rjómi. Hvergi finn ég dós sem á stendur "Cream". "Made from real cows". Hvergi. Og þeir eru svo vanir orðnir þessu sulli að það veit enginn hvað ég er að meina þegar ég segji að gervirjómi sé ekki rjómi. Þeyttur er hann eins og hvítur múrsteinn og ekki finn ég mikið bragð af honum. Er farin að setja vanillíndropa og sykur út í svona eins og í gamla daga. Og ef ég á að segja eins og er þá er ég ekki viss um að ég vilji venjast gervirjómanum. Senda mér einn pela? Einhver?
Engin ummæli:
Skrifa ummæli