föstudagur, 21. maí 2004

Ég fékk að vita það í gær að ég væri leiðindakelling sem talaði bara um Lúkas. Ég væri sumsé orðin ein af þessum leiðinlegu mæðrum sem eiga ekkert líf. Ég held að mér hafi aldrei sárnað nein ummæli jafn mikið og þessi. Af mörgum ástæðum. Ég hef alltaf verið vond við vinkonur mínar sem hafa eignast börn, neitað að hlusta á þær tala um börnin sín og almennt litið á þær sem leiðinda svikara. Ég verð hér með að biðjast afsökunar, það tók mig bara þetta langan tíma að komast þangað sem þið eruð. Ég er líka alveg síðan ég varð ólétt verið með ofsakvíða yfir því að ég myndi einmitt breytast í leiðindakellingu sem hefur ekkert um neitt annað talað en barnið sitt. Og ég hélt að mér hefði tekist það. Ég hélt að allt sem barnið gerir væri bara svo áhugavert að allir vildu að fá að vita um það. Ég hélt reyndar líka að ég ætti mér líf fyrir utan Lúkas. Ég var líka að fatta að svo er ekki. Frá því að ég vakna á morgnana og þangað til hann sofnar á kvöldin er ég að sjá um hann og þegar hann er sofnaður eyðum við Dave heilmiklum tíma í að tala um hann. Og ég er núna slitin á milli þess að vera í losti fyfir því að ég finn að mig langar bara til að tala um Lúkas vegna þess að það er fátt jafn áhugavert og hann, og löngunarinnar til að vera Svava Rán sem finnst börn asna- og leiðinleg. Er ég ekki ég lengur? Er ég orðin leiðinleg eða er bara í lagi að verða fullorðin og mamma. Er í alvörunni ekki hægt að vera skemmtileg móðir í augum hinna barnlausu? Ég veit að mér fannst það ekki áður en ég eignaðist Láka en ég veit líka að ég ætlaði mér alltaf að vera skemmtileg.

Og er hann ekki æðislegur?

Engin ummæli: