miðvikudagur, 9. júní 2004

Þá eru tvö önnur starfsviðtöl framundan. Hið fyrra í fyrramálið klukan níu. Dave verður ekki kominn heim þannig að Tracy systir hans ætlar að hafa Láka hjá sér á meðan. Ég fæ því smjörþefinn af því í fyrramálið hvernig alvöru líf er; vakna eldsnemma, baða, gefa borða, klæða, pakka niður dóti, hafa mig til, koma barninu í pass og komast til vinnu fyrir klukkan níu. Mjög spennandi verkefni. Í þetta sinn er starfið hjá SpecSavers, verslun sem myndi kannski útleggjast sem BónusBrillur á áskæra ylhýra. Ég verð nú samt að segja að þrátt fyrir að verslunin sé vel staðsett upp á ferðalög þá er ég með varann á mér gagnvart þessu gleraugnafólki, Dollond & Aitchison, gleraugnaverslunin sem síðasta viðtal fór fram í sögðust myndu hafa samband á föstudaginn fyrir tveimur vikum og enn hef ég ekkert heyrt. Sem minnir mig á það að ég ætla að hringja þangað og spyrja hvort þeim finnist það ekki dónaskapur að láta mig ekki vita að ég hafi ekki fengið vinnuna. Mér finnst það vera helber dónaskapur.

Seinna viðtalið er ekki fyrr en á þriðjudag og þá hjá Fitness First, heilsuræktarstöð. Þá vantar kellingu í afgreiðsluna. Kannski ekki spennandi starf per se en aðlaðandi vinnustaður. Ef ég vinn á líkamsræktarstöð hef ég þá nokkra afsökun fyrir því að mæta ekki í eróbikk? Ef ég er umkring heilsufríkum allan daginn hugsa ég mig þá ekki um áður en ég fæ mér næsta snickers? Allavega, ég gæti unnið og orðið hraust og velt því fyrir mér í leiðinni hvað mig langar í alvörunni að verða þegar ég er orðin stór. Eða öllu heldur hvernig ég ætla að fara að því að verða það sem mig langar til að verða þegar ég er orðin stór.

Engin ummæli: