þriðjudagur, 5. apríl 2005

Ég eyði svo miklum tíma í að reyna að finna hamingjuna að ég hef ekki tíma til að njóta þess sem ég hef nú þegar. Er það ekki bara sannleikurinn?

Ég er enn að stússast í að finna vinnu sem veitti mér meiri lífsfyllingu. Nú er ég búin að sækja um vinnu hjá Velska innflytjenda ráðinu, ég hugsaði sem svo að ég væri fullkomin í þann starfa þar eð ég er innflytjandi sjálf. Reyndar er ég núna oft spurð hvort ég sé frá Corwen eða jafnvel Betis-y-Coed. Ég hljóma víst voðalega velsk. Verst að geta ekki sett hérna inn tóndæmi. Hvað um það. Launin eru snöggtum betri en hlandsúpan sem ég er á núna, og ég held að ég hefði meira gaman að vinnunni sjálfri. Mér er hreinlega meinilla við að selja fólki hluti. Hvort sem því vantar gleraugu eða ekki.

Maður er svo rétt búin að jafna sig á heimþránni eftir jólin þegar mamma og pabbi koma í heimsókn og ég er back to square one. Í þetta sinnið langar mig ekki til að flytja heim samt. Ég vil að þau flytji hingað. Þau voru svo dugleg að laga til hjá mér, hér er allt nýmálað og ljós uppsett. Húsið er eins fínt og það getur orðið, ja eða svona allt að því, og ég tími ekki að fara frá því alveg strax. Mikið voða var gaman að hafa þau. Mig vantar alltaf svo að fólk dáist að Lúkasi mínum, og hver betri til þess en gamla settið?

Engin ummæli: